Ávarp Guðrúnar Margrétar Guðmundsdóttur við kertafleytingarathöfn við Tjörnina 9. agúst

Við erum hér samankomin til þess að minnast fórnarlamba Hiroshima og Nagasaki. Allra þeirra hundruða þúsunda sem misstu lífið, vini og ættingja og grundvöll tilveru sinnar vegna þess að ráðamenn í Washington töldu það snjalla hugmynd að varpa kjarnorkusprengju.

Nú 61 ári síðar eru slíkar hugmyndir því miður ekki á undanhaldi. Stríðsmenning lifir góðu lífi. Hún endurspeglast meðal annars í linnulausum árásum Ísraelshers á Líbanon, í réttlætingum Ísraelsmanna, í dyggum stuðningi og skilningi ráðamanna í Washington og í meðvirkni alþjóðasamfélagsins sem virðir rétt Ísraela til sjálfsvarnar út yfir öll skynsemismörk.

Stríðsmenning felur í sér að leiðin til sigurs sé að ráðast á óvininn með ofsa og helst honum að óvörum. Óvininn þarf að knésetja og samningsumleitanir eru veikleikamerki. Nýjustu fórnarlömb slíkra hugmynda eru þeir 1000 Líbanir sem látið hafa lífið undanfarinn mánuð og við minnust nú einnig hér í dag.

Það er mikill heiður að fá að ávarpa friðarsinna hér í kvöld. Friðarmenning er andstæða stríðsmenningar. Friðarmenning felur í sér að ráðast þurfi að rótum vandans, sem oft er falinn í óréttlæti, fátækt, efnahagslegu misrétti, og félagslegum aðstæðum. Til að hægt sé að semja um varanlegan frið þarf að þekkja aðstæður, aðdraganda og finna lausn sem kemur í veg fyrir kúgun eða yfirráð einnar manneskju yfir annarri.

Friðarsinnar hafa löngum verið kallaðir draumóramenn. Þeir eru sagðir óraunsæir, því þeir séu með hugann við annan heim en þann sem við lifum í. Þeir sem aftur á móti vilja bregðast við ógn með hörku og árásum eru taldir skynsamir raunsæismenn.

Ein sú spurning sem brennur nú á friðarsinnum, er: Af hverju er litið á fjöldamorðin í Líbanon sem fórnarkostnað fyrir öryggi Ísraela? Hver er skynsemin í því?

Ég held að ástæðuna sé m.a. að finna í djúpstæðri hugmyndafræði sem styrktist til muna eftir árás öfgatrúamanna á skotmörk í Bandaríkjunum 11. september 2001. Á þeim tíma urðu arabar og múslímar að hinum, hinir eru það sem VIÐ, Vesturlandabúar, erum ekki. VIÐ erum friðsamt, skynsamt og framsækið fólk. Hinir eru ofbeldisfullir, óskynsamir og afturhaldssamir. VIÐ (Vesturlandabúar) erum friðelskandi á meðan Hinir (arabar og múslimar) eru hryðjuverkamenn. Á þessu byggir Stríðið gegn hryðjuverkum (eða The War on Terror).

Skoðum árásirnar á Líbanon í samhengi við stríðsmenningu annars vegar og friðarmenningu hins vegar. Árásirnar VIRÐAST skynsamlegri í samhengi við Stríðið gegn hryðjuverkum.

Við – en Ísraelar flokkast með okkur – viljum, og höfum fullan rétt til að ráða niðurlögum hryðjuverkasamtakanna Hisballah.

Fyrir fimm árum hröktu Hisballah Ísraela frá Suður Líbanon og þvinguðu þá til að taka þátt í friðarviðræðum, eftir átján ára samfellda hersetu. Margir Ísraelar litu svo á að með því að setjast að viðræðuborði hafi þeir sýnt veikleikamerki sem hafi orðið til þess að auka hróður Hisballah undanfarin ár.

Þegar Hisballah fóru yfir landamærin og rændu tveimur ísraelskum hermönnum sem þeir ætluðu að nota sem skiptimynt í fangaskipti var nóg komið. Nú var ákveðið að sýna engin veikleikamerki!

Refsa skyldi Hisballah fyrir bíræfnina og Líbönum almennt fyrir að vera ekki búnir að afvopna Hisballah. Í leiðinni var tilvalið að senda skýr skilaboð um mátt og viljastyrk Ísraelsríkis til Íran, erkifjendanna í vestri, til Hamas óvinanna heima fyrir og Sýrlendinga, sem aldrei hafa viljað skrifa undir friðarsamninga.

Líbanir hlytu að skilja nauðsyn þess að sprengja upp flugvöllinn, opinberar byggingar, rafmagnsveitur, vatnsveitur, bensínstöðvar, vegi, brýr og íbúðarblokkir. Og mikilvægi þess að varpa sprengjum á gjörvallt Líbanon; svæði Sunni múslíma, Drúza og svæði kristinna sem hafa ekkert með Hisballah að gera. Jú! líkur eru á því að einhverjir Hisballaliðar eða stuðningsmenn leynist á meðal þeirra.

Þegar heiminum ofbýður atgangurinn er gott að bregða fyrir sig kunnuglegum stefum Stríðsins gegn hryðjuverkum: Hisballah eru „málaliðar öxulveldis hins illa“. „Stund Sannleikans er runnin upp.“ Ísraelarhafa „réttinn til að verjast hryðjuverkaógninni og berjast fyrir öryggi sínu.“ Og málið er afgreitt!

Ef við skoðum sömu atburði út frá friðarmenningu lítur málið öðruvísi út.

Hisballah samtökin voru einmitt stofnuð vegna hernáms Ísraela í Suður Líbanon 1982.

Shía múslímar vildu reka Ísraela á brott. Þeir voru einnig ósáttir við lítil ítök í stjórnkerfi landsins en franska nýlendustjórnin hafði falið kristnum mönnum stjórn landsins fyrr á öldinni. Hisballah samtökin voru semsagt stofnuð af reiðu og niðurlægðu fólki.

Ekki líta allir Líbanir á Hisballah-liða sem hryðjuverkamenn. Margir sem eru ósammála hugmyndafræði samtakanna og aðferðum, líta samt á þá sem hetjur fyrir að standa uppí hárinu á Ísraelum fyrir 6 árum síðan. En þó eru þeir kannski flestir sem hingað til hafa litið á þá sem stríðsglaða eiginhagsmunaseggi sem eru til stöðugra vandræða.

Nú er þó þannig komið að fáir stjórnmálamenn í Líbanon - hvort sem þeir tilheyra Sunni múslímum, Druzum eða kristnum - fást til að fordæma Hisballah opinberlega. Þeir eru nú álitnir frelsisher sem reynir að verja landið gegn árásum 5. stærsta her heims og þeim tæknivæddasta.

Fólk er nefnilega ekki mikið fyrir að láta ráðast á sig á hvaða forsendum sem það kann að vera. Sérstaklega þegar alþjóðasamfélagið leggur blessun sína yfir það.

Einu skilaboðin sem Líbanir hafa fengið síðustu vikurnar er að öllum sé sama þó þeir deyi. Þeir ógni jú friði í heiminum. Það er búið að reita heila þjóð til reiði. Það er búið að reita flesta araba og múslíma um allan heim til reiði. Og særa réttlætiskennd svo margra, margra fleiri.

Þeir sem aðhyllast stríðsmenningu gleyma nefnilega alltaf að stríð er ekki skák. Þó Ísraelardrepi hvern einasta Hisballah liða í Líbanon, hafa þeir ekki unnið taflið. Það hefur ekki verið ráðist að rótum vandans.

Þegar öllu er á botninn hvolft eru það hinir stríðsglöðu sem eru draumóramennirnir og friðarsinnarnir skynsemis- og raunsæismennirnir.