Sýrlands og Líbanonsfarar komnir heim

Við komum heim í gær kl 3,15 og voru margir nokkuð dasaðir enda alllöng ferð að baki. Allir voru þó í sólskinsskapi og ánægðir með ferðina.
Við yfirgáfum Damaskus um hádegisbil og var byrjað á að koma við í bakaríi því menn vildu birgja sig upp af Sýrlandskökum. Við landamærin kvaddi Maher hópinn og var óspart hylltur og allir voru sammála um að annan eins ljúflingsfararstjóra hefðu þeir varla hitt. Þegar við komum til Líbanon á fimmtudag var streymt á Hótel Duroy og tjekkað inn og um kvöldið fór rífur helmingur hópsins saman út að borða á elskulegan stað sem Gunnar valdi af stakri smekkvísi. Aðrir ýmist fóru annað, hvíldu sig á hótelinu eða stunduðu sjálfstæð rannsóknarstörf.
Síðasta daginn var svo farið í Jeita hellana sem eru unaðslegir dropasteinshellar og höfðu menn á orði að þeim fyndust þeir vera að stíga inn í himnaríki svo mikil var fegurðin sem við blasti. Svo var frjáls tími eða hvíldarstund því við fengum að vera á hótelinu til klukkan rétt sex. Þá var haldið í Hasan Maktabi teppasmiðjuna og þar fengum við fróðleik um teppagerð og síðan mátti kaupa eða kaupa ekki og keyptu fleiri en ætluðu í upphafi eins og var raunar með fleira í þessari ferð. Aðrir nutu þess bara að horfa á teppin, drukku te og borðuðu karamellur.
Upp úr kl 21 var svo keyrt út til Mir Khan og borðaður saman kveðjukvöldverður. Guðrún Hrönn hélt fallega og vitra ræðu þar sem hún þakkaði fyrir samfylgdina, Ólafur Mixa sem áður hafði samið og flutt hina dýrðlegustu drápu sem hann kyrjaði eftir komuna til Líbanon, hafði enn eflst og flutti tvær limrur og Ragnheiður Gyða og Jóhanna sögðu svo nokkur orð.
Síðar umkvöldið hófst svo líbanskur hávaði í músíkformi og rúsínan í pylsuendanum var íturvaxin magadansmær.
Um eitt leytið var tímabært að halda út á flugvöll og á leiðinni þangað sagði Einar nokkur spakleg orð, sagðist telja þetta eina bestu ferð af mörgum góðum. Nissrin gæd og Halastjörnu bílstjóra var þakkað með lófataki og eftir nokkuð fyrirhafnarsamt tjekkin fengu flestir sér blund á leiðinni til Búdapest. Við komuna til Kaupmannahafnar urðu fimm félaganna eftir en aðrir notuðu biðtímann 4 klst til að rölta um á Kastrup, fá sér bjór og rölta í fáeinar búðir til viðbótar.
Við komuna til Keflavík kvöddust allir með trega og var ákveðið að halda myndakvöld, teppa og búningakvöld síðustu daga maí mánaðar.
Held að óhætt sé að fullyrða að ferðin hafi ekki bara vakið menn til umhugsunar um allar þær ranghugmyndir sem menn hafa um þennan heimshluta heldur líka orðið hæfileg blanda af skemmtun og miklum fróðleik.