Hér svo pistill frá Jemenförum

Við erum í Taiz i mið Jemen og komum síðari hluta dags í gær. Keyrðum um græna djúpa dali og upp á fjallatinda, gerðum stans í bænum Ibb og gengum um gamla bæinn. Rétt þar í grenndinni er Jibla, ævaforn bær sem eitt sinn var höfuðborg Jemens. Það var á tímum þeirrar skörungskonu Orwu Ahmedsdóttur drottningar og við skoðuðum þúsund ára gamla mosku sem drottning lét byggja og horfðum á rústirnar af höllinni drottningar.

Við erum hér á hótel Taj Sjamsan, ljómandi skemmtilegu og rétt við markaðinn sem er náttúrlega kostur fyrir kaupglaða Íslendinga.

Í morgun var svo keyrt upp á tind Jaberfjalls sem er rösklega þrjú þúsund metra hæð og dáðumst þar að stöllum mörg hundruð ára gömlum en á þeim er ræktað allt milli himins og jarðar og útsýni af tindinum var stórbrotið og við höfðum á tilfinningunni að við sæjum yfir hálft Jemen eða vel það.

Nú eru menn að taka sér siestu og seinna í dag verður hópferð á markaðinn.

Gistum hér aftur í nótt en í fyrramálið í vesturátt og m.a verður þá farið í bátsferð á Rauða hafinu. Aðra nótt gistum við í Hodeidah.

Hér í Taiz er verulega hlýtt en það er þó ekkert miðað við það sem við getum búist við að sé í Hodeidah.

Allir eru himinlifandi og enginn hefur fengið i magann \ Allir sofa vel og eru almennt í hinu fegursta standi.

Og auðvitað biðja allir fyrir bestu kveðjur heim