Jemenfarar komnir heim

Við komum heim seint í gærkvöldi, allir glaðir og ánægðir hvað sem íslenskri rigningu leið.

Dagarnir í Jórdaníu heppnuðust hið besta. Menn sannreyndu við Dauða hafið að þar geta menn ekki sokkið hvursu þungir sem menn eru og flutu íslenskir eins og korktappar út um allt haf. Gistum þar á Marriott hótelinu sem er mjög flott hótel og var skemmtileg tilbreyting en ekki hefði ég og líklega á það við um fleiri afborið margar nætur á slíku hóteli.

Wadi Rum ferðin sló út Petraferð og var það stórmerkileg lífsreynsla að koma inn í þann heim. Eftir að hafa skoðað okkur um þar í bedúínatjaldi og hlustuðum á tónlist þeirra.
Áttum svo síðasta daginn í Amman, var farið um borgina og skoðuðum Citadellan og fleiri athyglisverðir staðir og verulegum tíma eytt í handverksverslunum.
Um kvöldið var svo kveðjukvöldverður og þá Stefanía Khalifeh ræðismaður okkar í Jórdaníu boð hópsins um að koma og snæða með okkur og þótti mönnum vænt um það og gaman að hitta Stefaníu sem hefur verið búsett í Jórdaníu í rösk 20 ár.

Daginn eftir kvöddum við Sami leiðsögumann á flugvellinum í Amman. Ferðin með Royal Jordanian til London var þægileg og síðan tók við nokkurra tíma bið uns Flugleiðavélin fór í loftið.

Við komuna kvöddust menn með trega og hlakka nú til að hittast að nokkrum vikum liðnum og bera saman bækur sínar, rifja upp minningar og skoða myndir.
Ég held að óhætt sé að fullyrða að þessi fyrsta ferð félaga VIMA- Vinafélags Miðausturlanda - til Jemens og Jórdaníu hafi lukkast einstaklega vel.