HVAÐ SEGJA VIMA-FÉLAGAR?

Sá að veruleg aðsókn var inn á Hugarflug í gær að fylgjast með málinu. Ýmsir tjáðu sig um málið og auk þess komu fínar ábendingar frá Guðrúnu Guðjónsdóttur og Þuríði Árnadóttur sem má lesa á eftir tilkynningunni.

Einnig skrifar Kristín Mantyla:
Mér kemur dálítið undarlega fyrir sjónir þessi skoðun ráðuneytisins að félagsskapur okkar hljóti að vera ferðaskrifstofa af því að við ferðumst saman.
Svo vill til að ég hef í áratug eða svo verið í öðrum samskonar "menningarfélagsskap", það er að segja því sem upphaflega hét Pálnatókavinafélagið en er nú orðið miklu fjölmennara en svo að það nafn eigi við alla meðlimi. Við höfum árum saman ferðast um Austur og Vestur Evrópu í ferðum, skipulögðum af Jóni Bö og félögum hans tveimur, nákvæmlega á sama hátt og VIMA með þér. Miðar keyptir af Flugleiðum en okkar menn ákveðið ferðatilhögun og verið leiðsögumenn. Ekki hef ég heyrt neinn halda því fram að Jón Böðvarsson reki ferðaskrifstofu.

Helga Garðarsdóttir skrifaði:
Þrátt fyrir einsleita umfjöllun velflestra íslenskra frétta- og blaðamanna um Miðausturlönd í mörg ár að þar væri allt á heljarþröm og að Vesturlandabúar hafi ekkert þangað að sækja, náði viðhorf og þekking Jóhönnu Kristjónsdóttur, blaðamanns, eyrum nokkurra Íslendinga og vakti áhuga þeirra á að heimsækja löndum.
Jóhanna er fararstjóri í ferðum VIMA. Ferðaskrifstofan er hins vegar sýrlenska ferðaskrifstofan Jasmin, veffang:http//www.jasmintour.com. Hvet ég "áhugafólk" um heimasíðu Johannatravel til að líta inn á síðu Jasmin.

Fyrir íslensk stjórnvöld og áhugafólk um heimasíðu VIMA kann að vera gaman að vita að þeir Íslendingar sem hafa farið til Miðausturlanda með Johannatravel hafa kynnt þjóð sína svo vel að heimamenn kalla "Iceland, welcome" á eftir þeim Íslendingum sem auðkenna sig með barmmerki þar sem þeir spranga um götur og torg, hvort heldur er einir síns liðs eða í hópi.
Vissulega gætu félagar VIMA komið til móts við þarfir ókunnugarar manneskju sem fram til þessa hefur fylgst glöggt með síðu félagsins, með því að ferðast í hæsta lagi saman tveir og tveir. En má ekki líka snúa þessu við og biðja umrædda manneskju um að leyfa okkur að njóta þess að ferðast saman í afar skemmtilegum hópi með skapgóðum og fróðum fararstjóra, í umsjón sýrlenskrar ferðaskrifstofu sem hugsar eins vel um viðskiptavini sína og hugsast getur og vandar vel valið á leiðsögumönnum?

Ari Trausti Guðmundsson skrifaði:
Ekki veit ég hver eða hverjir eru að amast við þínum ferðum með ferðalanga til austurs en ég get ekki séð hvaða vandamál samgönguráðuneytið ætti að sjá í þeim reisum.
Rétt eins og saumaklúbbar eða vináttufélag hefur óformlegt eða formlegt félag áhugafólks um Austurlönd nær eða samfélög araba rétt til að skipuleggja ferðir sinna félaga og allra sem slást vilja í hóp án þess að hafa til þess ferðaskrifstofuleyfi- svo fremi sem aðrir til þess bærir aðilar sjá um ferðir til og frá Íslandi og erlendar ferðaskrifstofur halda utan um gistingu og/eða skoðunarferðir síns hóps í sínum heimalöndum. Greiðslur fara beint til flugfélags og beint til samstarfsferðaskrifstofu ytra, þannig gengur slíkt fyrir sig.
Um þetta eru ótal dæmi: Litlir ferðaklúbbar fara í gönguferðir um Alpana, saumaklúbbar ferðast sem hópar til Rómar eða Helsinki, vináttufélög til Kúbu eða Kína og Ferðafélag Íslands hefur efnt til gönguferða í Noregi og Grænlandi svo fáein þeirra séu nefnd.
Með fundi fulltrúa ráðuneytisins hlýtur að vera hægt að eyða misskilningi og rekja ferli við hverja ferð svo ekkert fari milli mála.


Ástæða er til að þakka kærlega þessum fimm sem þegar hafa tjáð sig. Mun senda samgönguráðuneyti bréf eftir helgina og benda þeim á þær staðreyndir sem réttilega koma fram í ofanrituðum bréfum. Gaman væri þó ef fleiri bættust við.