Ýmsar góðar hugmyndir VIMA-félaga

Greinilegt að VIMA félagar hafa áhuga á að leggja orð í belg því innistæða reyndist næg fyrir góðum hugmyndum.

Samdóma skoðun var að fólk úr ferðunum langar að halda áfram að hittast annað kastið. Við skulum endilega stefna að því og ekki láta það dragast úr hömlu. Mætti spá í samkomu af einhverju tagi þegar líður á sumarið og menn eru komnir úr sumarfríi.

Þá er augljós áhugi á að athuga ferðir til Írans. Óman nefndu allmargir. Báðar þessar ferðir mundu væntanlega vera nokkuð dýrar en hugmyndirnar eru til fyrirmyndar og verða kannaðar vandlega. JemenJórdaníu ferðin nú í vor hefur spurst vel út og nokkrir notuðu tækifærið til að skrá sig í Jemenferðina í haust.

Tyrkland var nefnt og er vissulega fýsilegt. Aftur á móti býst ég við að það yrði nokkuð snúið vegna þess að hinar hefðbundnu ferðaskrifstofur hafa skipulagt ferðir þangað - að vísu ekki ferðir eins og VIMA telur spennandi - en þær kynnu að hefja aftur sitt krúnk. Látum það bíða um stund.

Áhugi er á arabískri tónlist og matargerð, menningu og hugsunarhætti.

Þá minntumst allmargir á þá hugmynd sem kom upp í aprílferðinni til Sýrlands og Líbanons að bjóða gædinum okkar Maher Hafez til Íslands næsta sumar og ekki vafi á að flestir ef ekki allir sem hafa kynnst Maher í ferðunum mundu taka því glaðlega. Við þurfum að reikna út kostnað og fleira því tengt og á haustnóttum munum við senda út email/bréf um þetta. Ég hygg að ef þátttaka verður góð í því verði upphæð varla meira en tvö þúsund krónur á mann. En meira um það síðar.

Fræðsla um fólk og mannlíf er ofarlega í hugum ykkar. Konur í Arabalöndum og staða þeirra. Vek þá athygli á því að í haust kemur -insjalla- út bók mín um þetta efni. Konur í fjórum Arabalöndum, Sýrlandi, Jemen, Egyptalandi og Óman og vona að hún veiti þar innsýn sem menn græða á að kynna sér.

Hugmyndarúttektinni var sem sagt tekið vel og stjórn VIMA þakkar kærlega og hefur þetta allt bak við eyrað.
Allar tillögur og ábendingar eru til bóta og hvet til að þið látið heyra frá ykkur sem oftast.