Flóttamannabúðaferð stendur upp úr hjá öllum

Í kvöld var ég að dunda mér við að reikna út hvað menn teldu að yrði einna ógleymanlegast úr ferðinni okkar til Sýrlands og Líbanon.
Þar hafa allir nefnt flóttamannabúðirnar í Sabra og Sjatila. Þær virðast hafa algera sérstöðu.
Aprílhópurinn fékk að vísu að vera mun lengur og fara víðar um, ásamt með leiðsögn stúlkunnar góðu.
Því er ekki að neita að ég velti fyrir mér hvort rétt væri að hafa þetta á dagskránni, því þetta er so sum ekki beinlínis skemmtiferð Á hinn bóginn gerir þetta mér og öðrum leiðsögumönnum hægara um vik að hefja frásögn og lýsingar á ástandi mála í Miðausturlöndum með því að fara í búðirnar. Þessi raunveruleiki fólksins í flóttamannabúðunum er ákaflega sterkur hluti þess vandamáls sem virðist vera óleysanlegur og ég finn á viðbrögðum að fólk skilur það og er því meðtækilegra en ella fyrir frásögnum og analísum af pólitík etc þessa svæðis.

Aðrar skoðunarferðir hafa mæst vel fyrir og flestar meira en það. Byblosferð er vinsæl og ekki síður Balbek og þar grunar mig að ekki síst megi þakka skörulegum lýsingum Hæþams töffara og hins töffarans, Ragnheiðar Gyðu.
Líklega stendur Palmyra upp úr hjá flestum. Einnig ferðin fyrsta daginn í Damaskus. Allir krossa við ferðina til Malulah og í reynd er ekki gott að sjá að nokkur ferð hafi verið óþörf. Flestir taka fram að þeir hefðu ekki viljað missa neina af skoðunarferðunum. Þó voru sumir orðnir duggulítið rúsaþreyttir þegar til Afamea kom.

Varðandi matinn er ánægja með hann. Meðaltal úr því mun vera um 8,5 núna.

Þá hefur meðaleinkun Heliopolis hækkað eftir því sem fleiri úr septemberhópnum láta í sér heyra og nálgast nú hraðbyri vitnisburð Cham Palace. Staðsetning Heliopolis er miklu heppilegri og ég vonast til að næsti hópur verði þar. Cham er náttúrlega fyrirmyndar´hótel, flott og fínt en það gæti líka verið hvar sem er í heiminum. Og við erum ekki að fara á þessar slóðir til þess.

Varðandi flugferð hafa allir afborið þær með meira og minna léttum leik enda man ég ekki betur en ég hafi haft uppi fáein velvalin viðvörunarorð fyrir ferðina um að þetta gæti orðið erfitt. Um að gera að mikla dálítið hlutina, þá verða allir þægilega hissa að það var ekki jafn erfitt og þeir bjuggust við.

Þegar spurt var um undirbúning ferðar voru allir kátir og enginn gerði athugasemd við að honum hefði verið ábótavant. nema síður sé.
Á morgun fjöllum við um næstu vers og ég læt þetta duga í bili. Þarf að vakna klukkan hálf sex og trítla um vesturbæinn með Moggamálgagn mér til óblandinnar hressingar.

Næsta greinargerð verður birt í kvöld því von er á allnokkrum umsögnum í dag.
Sofið rótt og verið dugleg að senda listana.