Hafa hugmyndir þínar breyst eftir þessa ferð/og þá hvernig?

Góðan daginn, félagar.
Áfram seytlast listar inn og eru allar upplýsingarnar fróðlegar og munu gagnast vel. Hvet þá sem ekki hafa sent inn svör að gera það.

Varðandi "einkunnagjafir" eða umsögn um hótel, mat og fleira skal tekið fram að engar stórkostlegar breytingar hafa orðið þar á. Maher hefur þó fengið einn vitnisburð sem er lægri en 9 en flestir gefa honum 10 eða 9+. Nisrin hefur fengið falleinkunn hjá fjórum og Hæþam hefur hækkað lítillega.

Hótelin eru á áþekku róli og í fyrstu útgönguspám( ég segi nú sisona)

Hér koma nokkur svör:
"...Ég hafði aðeins kynnst arabalöndum áður. Í þessari ferð voru kynnin meiri og ég er heilluð af menningunni..."

"Já. Ég vissi í raun ekkert um þennan heim nema úr fréttum sem yfirleitt eru neikvæðar. Allt um hryðjuverkamenn sem drepa saklaust fólk og illa farið með konur..."

"..ég var haldin ákveðnum fordómum gagnvart aröbum en svo fer ég á staðinn og þá kemur allt annað í ljós. Þetta segi ég fólki og fæ misjafnar undirtektir..þetta eru auðvitað áhrif frá fjölmiðlum. Svo er hollt að skoða annað en sólarstrendur.."

"...já, þær hafa breyst. Fjölmiðlar ala á ranghugmyndum um arabaheiminn.."
..."vissulega. Fyrst og fremst að upplifa að fólkið er eins og þið og þið og alls ekkert verra á nokkurn hátt.."

"...já, núna VEIT ég hvar þessi lönd eru sem ég hafði svo sem ekki velt fyrir mér áður. Ég hlusta með gagnrýnni eyrum á fréttir úr þessum heimshluta og þeir sem þar búa eiga frekar alla mína samúð eins og oft gerist þegar maður færir sig aðeins nær hlutunum.."

"..að sumu leyti já og eru enn að breytast því ég hef lesið mér heilmikið til um málefni þessa heimshluta eftir að ég kom heim...

"..já, ég þekki hlutina aðeins betur og er áreiðanlega umburðarlyndari.."

"...aðallega hafa hugmyndirnar breyst um það hversu miklar fornminjar leynast þarna í jörðu og ofan á henni..Mér finnst fólkið líka mun þægilegra en ég bjóst við eftir að hafa komið til Túnis þar sem ekki mátti horfa í átt að hluti á markaði án þess að fá sölumanninn eins og hrægamm á sig..."

"...hugmyndir mínar hafa kannski ekki breyst(hef kynnst honum með lestri greina og bóka t.d. eftirJK) heldur miklu frekar styrkt mig í þeirri trú að þarna býr gott fólk og að fréttaflutningur á Vesturlöndum er oft ansi einsleitur og að okkur hættir til að þröngva okkar menningu upp á araba og skiljum svo ekkert í því þegar upp úr sýður..."

Ég býst við það verði bið á þar til 3/4 hafa svarað. Sjálfsagt eru margir í sumarfríi. En gleymið þessu samt ekki. Þetta mun fara í skjalasafn VIMA til fróðleiks og leiðbeininga. Og vitanlega birtingar hér á síðunni.