MAHER SPRENGDI SKALANN !

Þá er að koma mynd út úr spurningalistunum. Svona líka ljómandi góð mynd.
Það sætir kannski ekki undrun en leiðsögumaðurinn okkar í Sýrlandi, Maher Hafez, sprengdi skalann. Fólk var beðið að gefa leiðsögumönnunum einkunn á bilinu 1-10. Maher fékk nokkrum sinnum 10+, þrír gáfu honum 10x10 og enginn sem hefur enn svarað gefur lægra en 9+. Umsagnir um hann eru allar á eina lund: vinsemd, hjálpfýsi, vel að sér og með góða enskukunnáttu, lipur og þjónustulundin einstök.
Það blasir við að Maher hefur sigrað glæsilega.

Hæþam leiðsögumaður fær einnig ágæta umsögn. Mönnum finnst hann klár og snöfurlegur, ekkert aukamas og vesen, ekki persónulegur en með allt á hreinu, góður að greina aukaatriði frá aðalatriðum og þess háttar.
Meðaleinkunn Hæþams nú er 8.

Nissrin fær dapurlegri útkomu en ýmsir átta sig á góðum vilja hennar og að hún er fróð og vís að mörgu leyti. Meðaltal hennar núna er 6,5. Þó er rétt að taka fram að sumir gefa henni þekkan vitnisburð.

Langflestir telja að verð á ferðinni sé sanngjarnt, nokkrir segja hana ódýra og enginn hefur minnst á að hún væri dýr.

Meirihluti segist hafa farið í ferðina vegna 1. hafi frétt af henni 2. áhuga á þessum heimshluta

Yfirgnæfandi meirihluti svarenda vill fara aftur á arabískar slóðir, annað hvort aftur til Sýrlands eða í nágrannalönd. Sýrland fær betri vitnisburð en Líbanon enda skal haft í huga að dvölin þar var lengri og farið víðar.
Flestir minnast á að þeir hefðu viljað fá meiri tíma í Damaskus.

Hótelin: Duroy í Beirút fær um 8,5 í meðaltal
Bliss í Beirút fær um 8
Plaza í Damaskus fer verst út úr þessu. Flestir tala um að það sé harla lúið og þreytt en staðurinn hins vegar fínn. Meðaltal þar er 6 en sumir gefa hærra, nokkrir upp í 9.

SKAL TEKIÐ FRAM AÐ SKIPT VERÐUR UM HÓTEL 'I DAMSKUS Í SEPTEMBERFERÐ.

Planet í Aleppo fær um 7,5 í meðaltal
Amir Palace í Aleppo það sama. Fólki þótti þó staður góður og hlaðborð fýsilegt en herbergi afar lítil.
Heliopolis í Palmyra fær 9,5 í meðaltal
Cham Palace í Palmyra fær 9,75 í meðaltal

Allir taka fram aðspurðir að þeim hafi fundist þeir vera öruggir í ferðinni. En umfram allt í Sýrlandi

Þetta eru bara nokkur atriði úr hinni óvísindalegu spurningakönnun. Niðurstöður varðandi skoðunarferðir, hvað verður ógleymanlegt, hvort ferðin hefur breytt hugmyndum manna og ýmislegt fleira birtist á morgun eða hinn.

MUNIÐ AÐ LÍTA INN OG ÞIÐ SEM HAFIÐ EKKI SVARÐ GERIÐ ÞAÐ.