Viljayfirlýsingum rigndi inn í gær

Það er gleðilegra en frá megi segja að viljayfirlýsingum um þátttöku rigndi inn í gær eftir að dagsetningar voru birtar- þó svo þær væru án ábyrgðar- og er gott til þess að vita hversu VIMA félagar eru áhugasamir. Hef skráð þá samviskusamlega á mína lista hvað hver vill og sé fram á líflegt ár hjá okkur.

Ég vil endilega hvetja ykkur til að láta í ljós áhuga ykkar hér og nú.

Sakar ekki að taka fram að ég verð að venju með námskeið hjá Mími símennt í haust.
Þau hefjast jafnskjótt og við hópurinn komum frá Líbanon og Sýrlandi.

Þar stendur til að hafa að venju fimm kvölda námskeið um Menningarheim Araba
og það verður á fimmtudagskvöldum kl 20,30-22. Einnig verða námskeið í arabísku einu sinni í viku. Þeir sem hafa áhuga ættu að snúa sér til Mímis þegar líður á ágúst eða svo.
Menningar og málanámskeið:
Menningarheimsnámskeiðin hafa verið svo vel sótt að Mímisfólk stingur upp á að fá stærri sal. Það held ég að væri misráðið því umræður og spurningar hafa verið drjúgur þáttur í tímunum og slíkt kynni að minnka ef væri farið í stærri salarkynni. Þess vegna mun Mímir að beiðni minni takmarka aðsókn við 25-30 þátttakendur.

Einnig er trúlegt að eins kvölds námskeið verði um Sýrland/Líbanon og líklega annað um Jemen/Jórdaníu. Þetta auglýsir Mímir ugglaust vel og dægilega þegar líður að hausti.