Ræðismaður býður Líbanons og Sýrlandshópnum heim

Francois Jabre, ræðismaður Íslands í Líbanon til margra áratuga hefur nú boðið hópnum sem fer utan á föstudag heim til sín á laugardag kl. 16. Jabre og hans góða frú eru mestu höfðingjar heim að sækja og vilja alltaf fá alla Íslendinga til sín sem til Beirút koma. Þau hafa verið erlendis þegar hinir hóparnir voru í heimsókn en eru nú hin glöðustu að fá tækifæri til að hitta þennan hóp.
Jabre er með meiri Íslandsvinum sem ég þekki og hann er alúðlegur, aldraður maður sem vill greiða götu flestra. Hann býr í mjög glæsilegu húsi með fögrum listaverkum og stórum garði.
Jabre hefur komið margsinnis til Íslands ásamt konu sinni, þekkir hér marga og á sínum tíma voru hann og Bjarni heitinn Benediktsson mestu mátar.
Á laugardag förum við upp á Harizahæðina þar sem sér yfir Beirút og löbbum um miðborgina. Ég hef tekið saman nokkrar myndir sem sýna hvernig miðbærinn leit út þegar stríðinu lauk og ég tók þar vorið 1991 til að gefa fólki hugmynd um hvernig ástandið var þá borið saman við það sem fyrir augu mun bera núna.
Eftir það trítl keyrum við svo til heimilis Jabre og eigum þar örugglega ánægjulega stund.

Vel að merkja, seinna í dag set ég inn á síðuna upplýsingar um flóttamannaverkefnið sem ég hef talað um og reikningsnúmer sem menn geta lagt beint inn á. En það hefur líka töluvert komið inn á reikninginn minn frá VIMA félögum sem ég mun taka með og afhenda. Þakka ykkur fyrir það.