Við erum komin heim!

Sýrlands og Líbanonshópur VIMA kom heim síðdegis í gaer og var kvaðst með virktum í ferðalok og ákveðið að efna til samveru með myndum og minningum eftir nokkrar vikur.
Ferðin heim var löng nokkuð en það vissu allir fyrirfram og vélar MALEVS sem við notum frá Beirút til Kaupmannahafnar eru þægilegar og mikill munur á þeim og vélum Flugleiða. Auk þess þykir sumum þjónusta í vélum Flugleiða þessa dagana minni en sæmandi verður að teljast.
Í Kaupmannahöfn varð Herta eftir í nokkra daga en aðrir fóru til Íslands samdægurs.
Síðasta daginn í Líbanon voru Jeitahellar´skoðaðir og einhverjir keyptu sér spólur um hellana en þar má ekki taka myndir. Mönnum þótti fegurðin mikil í hellunum og í Hundadalnum.
Eftir hádegið tóku menn því rólega, fóru á labb um Hamrastræti og leituðu sér að bókum og undramargt bættist í innkaupapoka. Aðrir lögðu sig og kl.6 var farið af hótelinu með pjönkur og í teppaskoðun þar sem við fengum fræðslu um teppi og teppagerð og svo var spurningin hvort einhverjir vildu kaupa og upphófst þá kröftugt prútt. Um hlemingur félaganna stóðst ekki þessa dýrgripi og festi kaup á mottum og teppum. Eftir það var farið á veitingastaðinn í Junieh og borðað og drukkið af sannri lyst. Samkvæmt fyrri reynslu hafði maður gengið undir manns hönd að fá hávaðann lækkaðan fyrirfram en samt fannst mörgum nóg um en þá var enn tækifæri til að versla því nokkrar búðir með fallega muni voru handan götunnar. Þar hélt Jón Helgi stutta tölu og þakkaði félögunum góða ferð. Kl hálf eitt var farið af stað út á flugvöll og á leiðinni flutti Guðmundur Pé stutt ávarp og snöfurlegt. Hæsham gæd var kvaddur og svo tók Soheil forstjóri Sunnyland að sér að aðstoða við að tjekka inn. Var þá eins gott að við gátum tjekkað inn sem hópur því ella hefði pyngjan lést hjá ýmsum.

Ferðin heppnaðist í alla staði vel, hvers kyns stórbrotinn skáldskapur svo og undursamlegur leirburður varð til í ferðinni og mun sumt af því verða sett inn á síðuna á næstunni og sumt ekki.
Samstaða og ánægja ríkti enda stærðin einkar þægileg bæði fyrir mig sem fararstjóra svo og félagana. Uns annað kemur í ljós finnst mér að þetta sé kannski best heppnaða Sýrlands/Líbanonsferð til þessa og er þá ekki lítið sagt því þær hafa allar verið mjög góðar.
Takk fyrir samveruna.