GÓÐAR UMSAGNIR UM ARAB'IUKONUR FOSSA INN
Undanfarið hafa þessir líka skínandi dómar/umsagnir birst hér og hvar um ARABÍUKONUR, svo sem á Kistunni, í starfsmannablaði ríkisstarfsmanna, Fréttablaðinu, í Kastljósinu, fyrir utan DV og Morgunblaðið og kannski víðar og kætir þetta mig mjög.
Hef lesið eins og forkur vítt og breitt en í kvöld verð ég að sleppa því þar sem ég hef fengið einhverja pest og ligg eins og ræfill með háan hita í mínu bóli. Einar Már Guðmundsson sá ágæti félagi hefur lofað að ræða um bókina áður en hann les úr Bítlaávarpinu.Við höfum lesið svo oft saman að undanförnu að ég efa ekki að hann fer létt með það.
Tveir lestrar voru bókaðir á morgun og hefur mín undurgóða samstarfskona í ferðunum Ragnheiður Gyða Jónsdóttir tekið það mál í sínar hendur.
Þetta virðist einnig benda til að ég komist ekki á Fegurðarkeppni herra Íslands þar sem Garpur Elísabetarson mun birtast í allri sinni dýrð. Vonandi líður þetta hjá svo lestrar í næstu viku fari fram samkvæmt áætlun.
Þetta hefur einnig sett strik í reikninginn varðandi sextíusmákökutegundabaksturinn og má auðvitað þakka fyrir það.
Arabíukonur tróna sem fyrr í fyrsta sæti allra Eymundsson og Penna verslana en hafa lækkað í könnun Félagsvísindastofunar. Það finnst mér að mitt kæra lið eigi að taka föstum tökum og það snarlega.
Nokkrir hafa bæst við sem áhugasamir um Egyptalandsferð og er það í góðu lagi og fyrirspurnir berast um Sýrlands og Líbanonsferð og gleður þetta minn kvefaða og heita haus.
Er búin að fá kássu af bæklingum um Óman og verði heilastarfsemin komin í skikkanlegt horf upp úr helginni vonast ég til að geta skutlað því inn á síðuna um það leyti.
Svo þakka ég enn góðar kveðjur frá ykkur varðandi bókina. Þær eru mikið gleðiefni. Og út í búðir nú og kaupið. Það gengur ekki að láta deigan síga. Fjórða prentun verður tilbúin um helgina og vonast ég til að hún gangi jafn vel. Sæl að sinni öll saman. Nú snara ég mér aftur í sjúklingshlutverkið sem ég sinni af einurð þessa dagana.
<< Home