Hinar aðskiljanlegu upplýsingar- Aðeins ein ferð til Sýrlands 2005

Góðan daginn og óskandi að mönnum hafi liðið vel um jólin og séu reiðubúnir að taka á móti næsta skammti af hátíðahöldum.

Það þarf að koma fram og fyrr en síðar að það eru nánast engin líkindi til að haustferð verði til Líbanons og Sýrlands 2005. Ýmsir hafa sent fyrirspurnir um þetta og svarið liggur sum sé fyrir: ekki haustferð vegna þess að ég verð upptekin við aðra iðju.

Upplýsingar um Ómanferð eru ekki komnar í hús en set þær inn á síðuna fyrir 10.janúar ef guð lofar. Sú ferð gæti orðið í nóvember 2005 ef þátttaka fæst en líklega ekki fyrr en í febrúar 2006.

Hvað Íran varðar hangir það í lausu lofti, vonast til að komast þangað síðari hluta febrúar og athuga það mál.

Um ferðir vorsins er allt gott að frétta.
Fundur með áhugasömum Jemen/Jórdaníuförum í maí verður fyrir miðjan janúar og tilkynntur nánar seinna. Egyptalandsferðin um páskana er fullskipuð.
Sýrlands/Líbanonsferðin er á góðu róli eins og við er að búast. Í sambandi við fleiri ferðir þangað má reikna með allverulegri hækkun - ekki á vorferðinni þó- en ef næsta verður vorið 2006 því Sýrlendingar ætla þá að hætta að innheimta í dollurum og brúka evruna svo á þessari stundu óljóst hvernig þau mál skipast.
Ég hvet sem sagt þá sem voru að hugsa um haustferðina til að slá sér frekar í vorferðina. Það er pláss enn og hugsanlegt - bara hugsanlegt þó- að hún lækki um 5 þúsund krónur. Það mun skýrast en varla fyrr en í febrúar.

Vegna fyrirspurna um Menningarnámskeiðið hjá Mími símennt verður það fimm kvölda námskeið og hefst upp úr 15.janúar. Menn skrái sig á það hjá Mími. Þetta hafa verið afskaplega vel sótt námskeið en nú þarf ég að byrja það fyrst/ef ég skrepp til Írans í febrúar.
Í fyrsta tímanum er fjallað um islam og sagt frá Múhameð spámanni. Í tíma tvö er rætt um stöðu konunnar, þriðji tími: menningarmál á svæðunum og tiplað á sögunni. Í fjórða tíma er rætt um stofnun Ísraelsríkis og þau áhrif sem það hefur haft á framvindu mála í þessum heimshluta. Í þeim tíma er einnig boðið upp á arabískan mat að smakka. Í fimmta tímanum er rætt um stríðið, einkum þó stríðið 1991 og þær afleiðingar sem það hefur svo haft.

Mímir auglýsir fyrstu vikuna í janúar og ættu menn þá að húrra sér í að skrá sig.

Minni svo Egyptalandsfara í mars og Sýrlands/Líbanonsferðalanga í apríl blíðlega á janúargreiðsluna. Reikningsnúmerið er 1151 15 550 908 og kt. mín er 1402403979. Bið ykkur að muna að greiða 1.-10.janúar.

Einnig vil ég minna á félagsgjöld VIMA, en við munum halda fund í lok janúar, þ.e. almennan félagsfund og greint frá dagskrá hans síðar. Verið svo þægileg að láta þessar upplýsingar ganga til félaga og kunningja sem hafa ekki netfang.
MUNIÐ LÍKA MAHER-sjóðinn!!

Gleðilegt ár og kærar þakkir fyrir samstarf og samveru á árinu 2004. Vona að árið 2005 verði okkur gjöfult ferðaár.