Egyptalandsferðin fullbókuð - gleymið ekki greiðslum

Frá því er snarlega að segja að ánægjulegir farþegar bættust við í Egyptalandsferðina og hún er nú full sýnist mér.
Menn hafa verið nokkuð seigir að borga janúargreiðsluna en betur má samt ef duga skal. Þetta á bæði við um Egyptalands og Sýrlandsfara. Þeim eru færð glaðleg þakkarkvök sem þegar hafa greitt inn á reikninginn.
Aðra greiðslu vegna flugmiða verður að senda út í næstu viku og eins er Sýrland byrjað að tísta. Svo ég hvet alla þá sem ekki hafa gert janúarskilin að gera það hið bráðasta elskurnar mínar. Það er ekki mikill varasjóðurinn sem johannatravel liggur með eins og menn vita.

Ansi margir segja mér að þeir hafi ekki fengið auglýsingabæklinginn frá Mími símennt. Hann barst reyndar ekki til mín fyrr en ég kvartaði við Fréttablaðið. Það eru þó nokkrir að íhuga mál þar svo þið ættuð að láta Fréttablaðið vita og ekki liggja á því við Mími ef einhver vanhöld hafa orðið á þessu.

Góður hópur bættist við Líbanons/Sýrlandsferð í síðustu viku svo það lítur notalega út en ég get samt tekið nokkra til viðbótar.

Þá er Jemen/Jórdanía í ágætu standi, fundur verður um þá ferð næsta laugardag og ef einhverjir volgir hafa áhuga á að koma á fundinn geta þeir gert það, skuldbindingarlaust, og sér til upplyftingar og kæti. Sú ferð er eins og áður hefur komið fram 8.-26.maí og þátttakendur mega ekki vera fleiri en 20 og auðvitað ekki færri en 15 því þá er verðið í uppnámi eins og þar stendur.
Menn verða þó að láta vita ef þeir ætla að koma, þ.e þeir sem ekki hafa þegar gert það.

Er líka að bauka við að setja saman ferð fyrir sjálfa mig til Egyptalands að skoða hótelin sem við verðum á í marsferðinni svo og að komast til Írans eins og ég hef margsinnis getið um. Það yrði sirka seinni part febrúar um leið og námskeiðunum hjá Mími lýkur.

Svo er ég að búa til dagskrá fyrir stéttarfélag sem hefur beðið mig að plana fyrir sig Egyptalandsferð. Að því búnu ætla ég ekki að missa af Stjörnukonum spila handboltaleikinn við þær grísku. Sæl að sinni.