ÁTTATÍU manns á VIMUfundinum

Vimufundurinn í Kornhlöðunni í dag tókst eins og við var að búast þegar líflegir og áhugasamir félagar koma saman. Hátt í áttatíu manns mættu þar og urðu fagnaðarfundir með fyrri félagum, væntanlegra og svo áhugamanna um þetta málefni.
JK setti fundinn og dreifði plöggum um væntanlegar ferðir svo og drög að 2006. Einnig Maherblaði og menn voru hvattir að borga félagsgjöld.

JK minnti einnig á þá skekkju sem fram kemur í fréttum þessa daga að kosningarnar í Írak á morgun séu þær fyrstu frjálsu í þessum heimshluta í áratugi. Það er einfaldlega ekki rétt, kosningar sem eru lýðræðislegar - jafnvel á okkar vestræna og siðfágaða mælikvarða- er haldnar í Líbanon, Jórdaníu og Jemen og all nokkur lönd eru að mjaka sér í átt til arabísks lýðræðis, svo sem Óman, Túnis og Palestína. Þetta skyldu menn hafa í huga. Þær eru á hinn bóginn fyrstu frjálsu kosningarnar sem fara fram undir hernámi og hervernd og spurning hvað mikill lýðræðisilmur getur verið af slíku.

Mörður Árnason flutti prýðisgóða tölu og sagði frá reynslu og upplifun úr Líbanons/Sýrlandsferðinni í september 2003. Hann rifjaði upp mikilfengleika þessa svæðis í sögulegum skilningi og taldi það lán og lukku að geta ferðast til þessara landa nú meðan þau eru nánast ósnortin af fjöldatúrisma. Hann sagði að þó margt hefði orðið sér ógleymanlegt og hann byggi að stæði ferðin í Umijadmoskuna í Damaskus upp úr og svo á annan hátt sú reynsla að koma í flóttamannabúðirnar í Sabra og Sjatila.

Svo fengu menn sér kaffi og kökur og Ragnheiður Gyða Jónsdóttir sagði frá arabísku söngkonunum þremur sem allar eru dáðar og elskaðar á öllu þessu svæði. Hún var með nokkur tóndæmi en tækin í Kornhlöðunni gerðu okkur grikk svo kannski tókst ekki að koma söng þeirra fullkomlega til skila. En þar sem flestir eru á leiðinni til þessara landa fá menn gott tækifæri til að njóta söngs þeirra kvenna þar.

Að svo búnu var fundi formlega slitið, menn röbbuðu og hjöluðu og skráðu sig í ferðir, greiddu gjöld, gengu í VIMA og kvöddust með virktum.
Öldungis prýðilegur fundur að mínum dómi og vonandi ykkar.

Í leiðinni ætla ég svo að minna alla á að nú renna senn upp greiðsludagar vegna Egyptalands í mars, Sýrlands/Líbanons í apríl og Jemens/Jórdaníu í maí. Séu einhverjir í vafa um upphæð eða reikningsnúmer hafi þeir samband.

Bestu þakkir aftur fyrir góðan fund sem sýnir að VIMA er öðlings félagsskapur skemmtilegs og forvitins fólks.