VIMAFÉLAGAR HITTAST LAUGARD.29.JAN.kl 14

Nú ætla VIMA félagar að hittast á fundi á Kornhlöðuloftinu í Bankastræti (bak við Lækjarbrekku) laugardaginn 29.janúar kl.14. Við drekkum saman kaffi og úðum í okkur kökum. Ragnheiður Gyða Jónsdóttir segir frá þremur vinsælum arabískum söngkonum, Úm Kaltúm frá Egyptalandi m.a. vegna þess að fyrsta ferð vorsins er til Egyptalands, Feirúz hinni líbönsku (en önnur ferðin er til Líbanons og Sýrlands) og svo Natössju Atlas sem er egypsk-bresk og tónlist með þessum eðalkonum verður flutt.
Mörður Árnason, sem var í VIMAferð til Líbanons og Sýrlands í september 2003 segir frá sinni upplifun, reynslu og lærdómi af ferðinni. JK ætlar svo einhvers staðar inn á milli að tala um vorferðirnar og plön fram á næsta ár.

Við vonumst til að sem ALLRA flestir mæti á fundinn. Bæði þeir sem hafa farið, eru á leiðinni og þeir sem ekki hafa farið en velta því fyrir sér og svo allir hinir áhugasömu.

Ekki væri verra ef menn borguðu félagsgjald í leiðinni.
Og takið með ykkur velviljaða og glaða gesti og væntanlega VIMU félaga. Við þurfum að gera skurk í að fjölga í okkar góða Vináttu og menningarfélagi og skrá þá mörgu inn sem hafa lýst velþóknun á þessum félagsskap.