ÞAKKIR FYRIR KVEÐJUR/ Fundur með Egyptalandsförum/ Sýrland og Líbanonsfólk athugið líka
Kærustu félagar. Það helltust yfir mig kveðjur frá VIMAfólki bæði á afmælinu mínu og vegna Hagþenkis verðlauna og ég þakka mikið vel fyrir þær sem mér þótti afar vænt um hverja og eina.
Þá hefur hugljómunin mín um að búa til sjóð til styrktar stúlkum í Jemen og í flóttamannabúðum Palestínumanna í Líbanon fengið frábærar undirtektir. Við stjórnarfólk í VIMA ætlum að hittast og ræða það mál og búa til vandaðar reglur um sjóðinn og svo verður það kynnt enn betur. Margir hafa þegar lagt framlög í sjóðlinginn og það var mér gleðiefni. Læt ykkur fylgjast með því vel og vandlega.
Býst við að reyna að ná VIMA stjórn saman á laugardag og skrifa síðan inn á síðuna á laugardagskvöld. FYLGIST MEÐ ÞVÍ.
TIL EGYPTALANDSFARA: Fundur um ferðina verður laugardaginn 12. mars kl. 14 í Stýrimannaskólanum gamla við Öldugötu (fyrir enda Stýrimannastígs). Þá er nauðsynlegt að allir mæti og sæki miða, upplýsingar og alls konar smálegt. Við fáum okkur kaffi og ræðum saman um þessa ferð sem er fullskipuð og Ragnheiður Gyða Jónsdóttir, sá gagnmerki fróðleiksbrunnur, verður mér til aðstoðar í þeirri ferð.
Einhverjir hafa látið í ljósi áhuga á að fara til Alexandríu á sama degi og skoðunarferð(valferð) er til Fejun og ættu þeir að láta vita sem hafa hug á því. Þeir fara væntanlega undir handleiðslu Ragnheiðar Gyðu þangað eða á eigin vegum. Ég ætla hins vegar að fara með þá sem vilja skoða Fejunvin alkemistans(sjá bók Pauls Coelho). En þetta kemur allt í ljós.
Ég set fundinn og dagsetningu inn aftur en vil að menn viti þetta með góðum fyrirvara og ef einhver getur ekki mætt VERÐUR sá hinn sami að senda einhvern fyrir sig.
Þá er rétt að Sýrlands/Líbanonsfarar fylgist vel með á næstunni. Vegna atburðarins í Beirut nú í vikunni hef ég haft samband við félaga mína þarna úti og fyrstu svör benda ekki til að við þurfum að hafa áhyggjur. Sjálfsagt er að athuga málið af yfirvegun og til greina kemur að breyta ferðinni svo að við sleppum Líbanon ef mér finnst ástæða til. Þá hefur mér dottið í hug að taka nokkra daga í Jórdaníu í staðinn. Það er hins vegar EKKERT sem bendir til þess í augnablikinu að ferðinni þurfi að breyta. En af því ég þarf að ganga frá flugmiðum í þá ferð mjög fljótlega bið ég sem sagt alla væntanlega ferðafélaga að fylgjast með á síðunni.
Enginn hefur látið í ljós efasemdir. Það er ekki stíll VIMA fólks. Við verðum bara í sambandi.
Það getur vel verið að ég setji fleira inn í kvöld. Margblessuð í bili og aftur kærar þakkir fyrir allar kveðjurnar og þessar glæsilegu undirtektir.
<< Home