Borguðu nú menn af miklu kappi - kæra þökk- verða tvær Ómanferðir
Mér er ánægja að segja að Egyptalandsfarar tóku hraustlega við sér eftir síðustu tilkynningu sem var kannski í fyrirsögn nokkuð tilfinningaþrungin. En það hreif og allir eiga þakkir skildar fyrir hve fljótt var brugðist við. Aðeins örfáar sálir eiga eftir að borga og gera það ugglaust á mánudag. Einnig hafa nú allir Líbanons og Sýrlandsfarar borgað febr. greiðslu og aðeins einn Jemenfari skyldi sinna því máli af kæti strax eftir helgi.
Þá er gaman hvað margir eru forsjálir og skrá sig á lista fyrir 2006. Óman virðist orðið fullt og því hefur mér dottið í hug sú snjalla lausn að hafa tvær ferðir, þar sem Egyptaland virðist í bili ekki vera jafn eftirsótt. En verður það ugglaust að þeirri ferð lokinni sem er nú í mars. Svo hafa VIMA félagar skráð sig í Jemen Jórdaníu vorið 2006 og Sýrland/Líbanon heldur sínu enda komin á það mest reynsla og þær ferðir spyrjast vel út.
Svo ég beini þeim tilmælum til ykkar að láta mig vita um áhuga ykkar. Ekki þarf að óttast að farið verði að rukka og engar skuldbindingar í gangi en allt þarf nokkuð góðan aðdraganda eins og menn vita. Sömuleiðis er áhugi á Íran haustið 2006. Nú bíð ég með öndina í hálsinum eftir að vegabréfið mitt birtist stimplað og fínt svo ég komist út 20.febr. eins og áformað var.
Nú veit ég svo sem ekki hvernig netkaffismál eru í því landi en svo fremi ég geti mun ég senda pistla heim á síðuna svo menn geti fylgst með því. Meira um það seinna. Það hafa tveir bæst við í Egyptalandsferð og ég fæ svör eftir helgi hvort þeir komast með. Sömuleiðis er einn mjög áfjáður Sýrlands/Líbanonsfari sem ég er einnig að athuga hvort fær flugmiða og pláss. Það skýrist vonandi á mánudag, eða síðasta lagi á þriðjudag. Bið ykkur að fylgjast með á síðunni.
Það verða svo birtar á síðunni síðla sunnudags eða mánudagsmorguns upplýsingar um hina snöfurlegu hugljómun mína sem ég efa ekki að VIMA félagar munu verða kátir að heyra um.
Sofiðið blítt.
<< Home