Hvernig væri að búa til sjóð?

Mig langar hér með að segja ykkur frá hugljómuninni minni, mínir vænu félagar.
Nú á ég sumsé afmæli í dag - sem er vissulega merkisdagur eins og allir afmælisdagar eru. Einhver spurði mig á dögunum hvað ég vildi fá í afmælisgjöf og ég verð að játa að mér varð svaravant. Því hvað vantar eiginlega skipulagða stútungskonu á mínum aldri? Svo hugsaði ég málið og komst að niðurstöðu og hér er hún:

Mesta ánægja mín væri að við stofnuðum dálítinn sjóð til að styrkja jemenskar stúlkur í nám og til að styðja við bakið á palestínskum stúlkum sem hírast í flóttamannabúðum í Líbanon við bág kjör. VIMA hefur nokkrum sinnum látið smáupphæðir af hendi rakna til verkefnis þar. En með alvöru sjóðstofnun gæti sú hjálp orðið markvissari. Hvað varðar skólagöngu stúlkna í Jemen held ég að þar gæti slíkur sjóðir gert heilmikið gagn. Aðstæður þeirra eru erfiðar en stúlkan Fatíma í Þúla er gott dæmi um unga stúlku sem þyrfti að komast í nám.

Því bið ég þá sem vilja gefa mér eitthvað/vilja styrkja þessa hugmynd að leggja inn upphæð á reikninginn 1151 15 551130 og kt. mín er 1402403979. Síðan bý ég fljótlega til sérstakan reikning utan um þetta og svo verður þetta fljótlega alvörusjóður og vonandi getum við leitað til ýmissa utan VIMA. Athugið að upphæðin er bara eftir smag og behag og allt hversu lítið/mikið kemur að gagni og sýnir hug sem ég met mikils.

Svo þetta er mín hugljómun og ég vona að ykkur lítist nokkuð vel á hana. Ef þið viljið taka þátt í þessu elsku leggið þá smotterí inn á reikninginn. Á næsta VIMAfundi ætla ég að fá aðstoð við að gera reglur um þennan sjóð og koma þessu á framfæri.
Þetta er gert í tilefni af afmælinu mínu í dag og ánægjulegum persónulegum viðburði á morgun.
Nú er ég óneitanlega mjög spennt að vita um undirtektir ykkar. Sæl að sinni.