ÆSIST NÚ leikurinn - ÓMAN á fljúgandi fart

Þó svo að enn sé langt í að VIMA félagar þurfi að segja af eða á er nú þegar næsta víst að ÓMAN ferð verður að veruleika.
Hinn snöfurlegi kjarni hópsins hefur þegar skráð sig og ýmsir hafa skýrt frá áhuga á ferðinni svo það má vonandi bóka- ef guð lofar- altso að ferðin er komin á dagskrá í alvöru.

Bara svona til að kæta ykkur.

Þá er útlit fyrir að ég komist í könnunarleiðangurinn til Írans núna upp úr 20.febr. Verður spennandi að sjá hvernig það gengur. Vegabréfsmál á þann bæ virtust snúin en svo rættist úr því öllu saman.

Ég vil benda Egyptalandsförum, Sýrlands/Líbanonsförum og Jemen/Jórdaníuförum afskaplega vinalega á að það eru mánaðamót og þá er að greiða inn á vorferðirnar, mín kæru. Látið það ekki dragast úr hömlu því ég hef þegar sent lokagreiðslu fyrir Egyptaland (ferðina innan landsins) og fyrirframgreiðsla á Sýrland/Líbanon fer af stað þegar fleiri hafa greitt.

Það voru áhöld um að reyna að halda stutta fundi með Egyptalandsförum sem ekki komust á kynningarfundinn og sama má segja um Sýrlands/Líbanonsfólk. Eins og ég sagði frá á Kornhlöðufundinum sé ég ekki að tækifæri verði til þess. Því miður. En vitaskuld verður fundur fyrir ferðina. Og hikið ekki við að hafa samband ef einhverjar spurningar eru sem þið viljið fá svör við eða eruð í vafa.

Í blálokin ætla ég að segja ykkur að ég hef fengið undursamlega hugmynd. Hún er sú skynsamlegasta sem skotið hefur upp í kollinum síðan ég fékk hugljómun í Damaskus um að skrifa Arabíukonur.

Þetta er ekki bókarhugljómun þó. Mun deila þessari hugmynd með VIMU félögum og öðrum velunnurum áður en mjög langt um líður.

(p.s ég yrði stjörnuvitlaus úr forvitni ef mér væri sagt þetta án þess mér væri sagt þetta. En þið bara fylgist með síðunni..........haha)