Til Írans á sunnudag--lítur bærilega út í Líbanon

Þá lauk menningarheimsnámskeiðinu í gærkvöldi og var hið ánægjulegasta og vonandi allir einhvers vísari. Greinilegt að ýmsir hafa áhuga á ferðum og að ganga í VIMA.

Rétt áður en ég vippaði mér út úr dyrunum í gærkvöldi kom sendiboði frá póstinum og var með vegabréfið mitt og í því undurfagur stimpill frá íranska sendiráðinu. Því er nú ekkert til fyrirstöðu lengur og ég flýg til Amsterdam á sunnudag og svo áfram til Teheran á mánudag.
Eins og ég hef minnst á er ég ekki viss um hvernig netkaffismál eru í Íran en reikna með að þau séu í góðu standi og þess vegna skrifa ég einhver vísdómsorð inn á síðuna öðru hverju en get hins vegar ekki endilega sent öllum tilkynningar um það svo ég vona þið hafið skeleggt frumkvæði að því að fara inn á síðuna í næstu viku. Gott að gera það bara að reglu eins og að bursta tennur á morgnana og taka lýsisskammtinn sinn.


Af Líbanon er allt þokkalegt að frétta. Sé ekki neitt enn sem mælir gegn því að við förum þangað í apríl. Þarf að láta flugfélagið MALEV vita annað kvöld og set smáhugvekju inn annað kvöld um það.
Hef Jórdaníu í bakhöndinni með Sýrlandi ef eitthvað gerist sem manni sýnist að dragi úr því að við byrjum í Líbanon. Ég vona að allir séu út af fyrir sig dús við það.
Væri ekki verra að heyra frá ykkur um það.

Svo hittumst við VIMA stjórn á morgun og ég segi frá því ef við skyldum komast að einhverjum hnyttnum niðurstöðum.