FUNDIR LUKKUÐUST VEL MEÐ H'OPUNUM

Fundirnir í dag, laugardag, tókust prýðisvel.
Egyptalandshópurinn mætti kl. 14 e.h. og var rabbað um áætlunina, verð á hinu og þessu, hverjir hafa hug á að skjótast til Alexandríu eða fara í loftbelgssvif í Lúxor.
Bent var á ýmsa þætti sem mönnum kæmi vel að vita og var mikið spurt og spjallað og tilhlökkun í hópnum. Farmiðar og önnur gögn afhent en sú hefð hefur skapast að VIMA farþegar noti sérstakt merki með íslenska fánanum og skreyti töskur sínar á áberandi hátt. Allt auðveldar þetta og greiðir fyrir. Síðast en ekki síst fengu allir lista yfir ferðafélaga. Þá kom raunar upp úr dúrnum að mér hafði orðið léttilega á í messunni og sett Guðnýju Daníelsdóttur í herbergi með eiginmanni sínum svo og eiginmanni annarrar Guðnýjar í ferðinni. Þessu tóku allir af fullkominni léttúð. Nokkrir greiddu félagsgjöld og svo var kaffi og te og íranskt sætabrauð á boðstólum. Í þessari ferð mun Ragnheiður Gyða Jónsdóttir verða minn dyggi aðstoðarmaður.

Sýrlands/Jórdaníuhópurinn kom síðan kl. 16 og ekki var minni kæti þar, að mér fannst. Þar var útdeilt nýju áætluninni sem fékk góðan hljómgrunn enda augljóst að við erum á ívið fínni hótelum- og voru þau þó ágæt fyrir- og nokkrar uppákomur sem ekki hafa verið í fyrri ferðum enda um að gera að pússa og laga. Ég hef skipt um ferðaskrifstofu í Sýrlandi og líst vel á hana. Við munum þó halda okkar indæla sýrlenska leiðsögumanni og væntanlegum Íslandsgesti, Maher Hafez.
Á þessum fundi var að sjálfsögðu einnig kaffi og te og íranskt gúmmulaði.
Farmiðar voru ekki tilbúnir, enda stóð það ekki til, en þeir verða sendir öllum, eða ég bið fólk að sækja þá til mín einhvern daginn milli ferða. Þá ber að geta að einhverjir gengu í VIMA og/eða greiddu félagsgjöld sín.

Held að óhætt sé að segja að allir hafi verið í fegursta skapi á báðum fundum og þægilegur spenningur í fólki. Mæting var til fyrirmyndar og þeir sem ekki komu höfðu boðað forföll og falið öðrum að bera þeim þær upplýsingar sem var miðlað á fundinum. Fundirnir lofa góðu um ferðir ársins hjá VIMA. Munið að láta síðuna ganga til 2-3ja svo 10 þúsund náist fyrir brottför til Egyptalands. 7-9-13