Haustferð- vinsamlegast hugmyndir - Sendi hver síðu áfram til 2-5

Það kemur á daginn að ég hef losað mig úr verkefni því sem stóð til að ég þyrfti að taka að mér í byrjun september.
Svo þá liggur beint við að íhuga ferð.

Eftir þeim hringingum og fyrirspurnum sem ég hef fengið upp á síðkastið leita flestir upplýsinga um Sýrlandsferð - þá annaðhvort með Jórdaníu eða Líbanon.
Þess vegna kæmi til greina að hafa eina ferð í byrjun september. Jórdanía/Jemen kemur líka til álita og kannski væri ráð að menn segðu álit sitt á þessu.
Óman er enn á planinu fyrir febr. 2006 og stendur ekki til að breyta því og sama máli gegnir með Íran; við hinkrum um stund með það.

Mig langar til að vekja athygli manna á því að þessar ferðir kalla á að menn skrái sig tímanlega. Það heyrir til undantekninga ef hægt er að bæta fólki við þegar aðeins sex vikur eru í ferð. Þetta eru ekki sólarlanda eða afsláttarferðir þar sem menn hoppa inn.
Upplýsingar þarf að senda út til að greiða fyrir áritunarmálum, panta hótel og semja við flugfélög og ferðaskrifstofurnar og þetta útheimtir að menn geri því upp hug sinn með góðum fyrirvara. Það er svo sem nauðsynlegt líka að menn undirbúi sig- sálina altso- þó þetta séu alls ekki erfiðar ferðir.
Þetta er sagt af nokkrum erfiðum og gefnum tilefnum nú upp á síðkastið.

Ég bið menn líka að skilja að menn verða að sjá um tryggingamálin sjálfir. Í fyrsta lagi er johannatravel ekki ferðaskrifstofa og hefur engin slík leyfi/skyldur og réttindi. Við erum ferðahópur og púnktur.

Menn geta gert þetta á einfaldan hátt með því að bæta ferðatryggingu sem getur þess vegna verið tímabundin inn í heimilistryggingu sem flestir hafa væntanlega. Þar með er málið leyst.

Á hinn bóginn fá þeir sem eru í vildarklúbbi Flugleiða sem heitir víst alls ekki Flugleiðir lengur - sína púnkta því ég sendi Flugleiðum jafnan nöfn og kennitölur fyrir hverja ferð.

Minni enn á fundina á morgun kl. 14 og 16.
Látið heyra frá ykkur svo ég geti íhugað hvort við veljum Sýrland eða Jemen sem áfangastað í september. Eða kannski enga ferð. Lágmarksþáttaka í Sýrland er 25 og 18 í Jemen. Hugsið málið og hafið samband.
Til að 10 þúsundasti gestur komi á síðuna fyrir Egyptalandsbrottför bið ég hvern og einn sem fer inn á johannatravel að senda hana til 2ja-5. Koma þessu virkilega í gang, það er lóðið.