Sitt lítið af hverju og annað smálegt - en mikilsvert þó

Góðan daginn ljúfurnar mínar. Vona að allir hafi sofið vel.

Það fer að styttast í Egyptalandsferðina og allir verða að muna eftir fundinum á laugardaginn kl.2 í gamla stýró og svo er fundur Sýrlandsfara strax á eftir þ.e kl 4
Gott mál það og allir hlakka til. Ætla að svara hér þeirri fyrirspurn um hvort hægt sé að borga flugferðina til Abu Simbel með korti og eins ferðina til Fejun síðar í ferðinni. Og það er sem sagt allt í góðu með það.

ANNAÐ MÁL fyrir Egyptalandsfara: Vegabréfsáritun inn í landið kostar 13 evrur. Til að auðvelda málið er ég að hugsa um að þið borgið mér þessar evrur á leiðinni og þá snara ég þeim í forstýruna Amy sem vonandi kemur þjótandi og hún lofar að láta okkur renna þægilegar í gegn. Við skulum allavega miða við þetta og ef það gengur ekki eftir að þetta verði til hægðarauka, - nú þá dregur maður bara djúpt andann og segir við sjálfan sig: Maður er nú í Egyptalandi - insjallah.

Samt er ég ekki alls konar lukkuleg. Því enn eru nokkrir sem hafa ekki greitt síðustu greiðslu fyrir Egyptaland. Þetta er ekki gott mál og ef ég væri ekki með mína pottþéttu Sýrlands/Jórdaníufara sem borga sem óðir - þá væri ég í vondum málum. Auðvitað þakka ég öllum þeim sem HAFA borgað og bið þessa fáu sem enn hafa ekki gert upp ferðina að gera það á morgun, mánudag.
Nokkrir hafa borgað aukalega upphæð og hafa tekið fram að það eigi að renna í sjóðsstofunina okkar og kærar þakkir fyrir.

Ég býst við að VIMA haldi sinn fyrsta aðalfund í apríllok, þ.e. eftir að Sýrlandsferð er lokið og áður en farið verður til Jemen í maí. Þá skulu allir hafa greitt árgjaldið, 2.000 kr.
Væntanlega tekst að leggja fram hugmyndir að næstu ferðum þá. Endilega hafið þetta bak við eyrað.

Hef beðið gjaldkera VIMA, Guðlaugu Pétursdóttur að koma á fundina 12.mars með kvittanahefti á lofti og væri afskaplega vel þegið ef menn borguðu bara árgjaldið þá- þeir sem ekki hafa þegar gert það. Athugið líka að aðalfundarboð verða send út til þeirra sem ekki hafa imeil. Og nýir félagar eru velkomnir og meira en það - þeim er tekið fagnandi.

Síðan ég kom frá Íran á þriðjudag hef ég verið að stússa í alls konar formsatriðum varðandi ferðirnar og hef einnig farið í eina tvo fyrirlestra, annan hjá hinum sigursælu Borgarholtsskólanemum og hinn hjá heldri borgurum á Aflagranda. Það sama verður uppi á teningnum í næstu viku. Gaman að því líka hvað margir leshringir eru að kynna sér Arabíukonurnar.

Bið svo þá sem eru með Óman í huga svo og Íran að láta vita. Hef þegar ansi drjúgan hóp á hvorum og vonast til að af þeim verði. Ef fleiri vilja bætast við hafið þá samband.