Uppsúmmering á vel lukkaðri Egyptalandsferð

Kvaðst var með virktum í Leifsstöð síðdegis í gær, 30. mars þegar Egyptalandsfarar höfðu fengið föggur sínar og var fargi af mér létt að allar töskur skiluðu sér þrátt fyrir knappan tíma í Búdapest.

Síðan hef ég heyrt í nokkrum í dag og allir eru glaðir og þykir þessi ferð hafa tekist sérstaklega vel.

Lokakvöldið í Kairó var einkar gómsætt og skemmtilegt. Þá bauð Hamisferðaskrifstofan til kvöldverðar á báti á Nílarfljóti og gæddu menn sér þar á hinum mestu kræsingum. JK þakkaði viðstöddum fyrir ferðina og lofaði frækilega frammistöðu Ragnheiðar Gyðu Jónsdóttur, aðstoðarfararstjóra. Guðrún S. Gísladóttir og Mörður Árnason mæltu fram ánægjuorð. Síðan var farið upp og stiginn dans um stund. Það er á engan hallað þó fullyrt sé að þar hafi dans Helgu Þórarinsd og Múhammeds gæds borið af.
Fyrr um daginn fór hluti hópsins til vinjabæjarins Fejum, nokkrir til Alexandríu og voru allir ánægðir. Þá voru allir sammála um að skynsamlegt hefði verið að Egypska safnið var skoðað í ferðalok og kom þá margt þar mönnum kunnuglegar fyrir eyru og augu en ella hefði verið.

Það sýndi sig í þessari ferð að Egyptaland hefur af miklu að státa eins og allir vissu og að menn voru stundum yfirþyrmdir af glæsileik og margbreytni fortíðar.

Í þessum 36 manna hópi myndaðist samstaða og vinátta og allmargir hafa þegar skráð sig í aðrar ferðir VIMA fólks eða amk látið setja sig á áhugalista. Hinu er svo ekki að neita að það getur alltaf komið fyrir að í ferðum sé einhver sem hefur ekki þroska til að fara á framandi slóðir og þaðan af síður að meðtaka land og þjóð á hennar forsendum en ekki þeirra sem utanaðkomandi eru. Slíkt telst til hvimleiðra undantekninga sem betur fer.

Svo vona ég að við getum haldið myndakvöld þegar ég kem aftur frá Sýrlandi og Jórdaníu síðari hluta apríl. Kannski ættum við að skipa nefnd í málið. Væri þá ráð að panta góðan sal, menn gætu skipt með sér að koma með eitthvað í gogginn. Óska eftir tilnefningum í nefndina. Svona 3-4, konum eða körlum.