Sendið síðuna til kunningja svo þeir geti fylgst með. Íranferð að verða fullskipuð ofl

Mig langar að benda væntanlegum Sýrlandsförum á að láta ættingja og vini hafa síðuna svo þeir geti fylgst með ferðinni og ef til vill sent kveðjur. Allir Sýrlands/Jórdaníufarar hafa nú sótt miða sína og allir ætla að vera mættir sæmilega snemma á sunnudag til að tjekka inn farangurinn alla leið til Damaskus og helst fá brottfararspjöld alla leiðina til Damaskus sem greiðir fyrir. Munið vegabréfin, elskurnar mínar. Munið líka að merkja töskur með rauðu borðunum og vinsamlegast berið barmmerkið.

Sýrlandsfarar eru kátir yfir því að Jórdaníudagskrá virðist einkar hugnanleg. Íslensku konurnar þrjár sem eru búsettar í Amman geta vonandi hitt hópina eitthvert kvöldið okkar þar enda kom náttúrlega upp úr dúrnum að ýmsir kannast þar við gamlar skólasystur eða jafnvel kennara sem áhugi er á að hitta.

Þá langar mig að geta þess að Íranferð er að verða fullsetin og ég á von á því að bráðabirgðaáætlun gerði jafnvel birt áður en ég fer með hópinn 10.apríl. Fylgist því með á síðunni. Verð er þó ekki klappað því flugverð er enn óljóst en ég hygg að þessi ferð verði ekki tiltakanlega dýr. Rétt er að taka fram að það er möguleiki á Sýrlandsferð í byrjun september en þá er beinlínis NAUÐSYNLEGT að fólk gefi sig fram hið allra allra fyrsta.

Maíferðalangar til Jemen/Jórdaníu hafa verið ötulir að greiða inn á ferðina og sumir hafa fullgreitt og takk fyrir það.

Ég veit ekki enn hvort áætlun Ómanferðar í febrúar 2006 verður tilbúin á aðalfundi VIMA í lok apríl en mun gera mitt besta þegar komið er heim frá Sýrlandi/Jórdaníu.

Það vantar enn amk eina hressa manneskju, karl eða konu til að undirbúa myndakvöld vegna Egyptalandsferðarinnnar nú í mars.

Nauðsynlegt er og beinlínis aðkallandi að áhugasamir um Egyptalandsferð á næsta ári láti í sér heyra. Hef hugsað mér nokkrar breytingar á henni. svo sem að flogið verði frá Kairó til Aswan og einnig reikna ég með að sniðugt væri að bæta við amk. einum degi í Kariró, annað hvort í byrjun ferðar eða í lok hennar. Það hækkar náttúrlega verð en ekki að neinu marki. Ferðaskrifstofufrúin okkar Amy í Kairó er öll af vilja gerð. Hún var mjög ánægð að hitta hópinn síðasta kvöldið og bað fyrir sérstaklega hlýjar kveðjur í imeili sem hún sendi mér eftir að við komum heim.