Sýrlands/Jórdaníufarar eru komnir heim

Við komum heim núna í eftirmiðdaginn og var ferðin heim nokkuð ströng eins og dagskráin sagði til um, en allir báru sig vel og kvöddust með virktum á Keflavíkurflugvelli. Vonandi höldum við svo myndakvöld og samveru undir mánaðamótin maí/júní. Þá hafa allir sorterað áhrif og upplifun, skoðað myndir og njótum þess að hittast.

Ég vona að sem allra flestir í ferðinni gangi í Vináttu og menningarfélag Miðausturlanda, þ.e. þeir sem ekki hafa þegar skráð sig og skulu þeir hafa samband við gjaldkera VIMA Guðlaugu Pétursd. gudlaug.petursdottir@or.is og árgjaldið er aðeins 2000 krónur.

Vima heldur aðalfund á næstunni og allir félagar fá tilkynningu þar um.

Síðustu dagar ferðarinnar voru einkar indælir. Öllum fannst ferðin til Jórdaníu frábær en ég held þó að Sýrland standi huga flestra enn nær. Allir voru kátir að hitta Maher á landamærunum og við byrjuðum á að fá okkur hollar og bragðgóðar kebabsamlokur en tjekkuðum okkur svo inn á Semiramis.
Dagurinn næsti var undur góður. Á þjóðminjasafnið í Damaskus um morguninn og síðan dreifðust menn um gömlu borg eða upp í Hamrastræti og eftir föggum um kvöldið að dæma höfðu margir gert hin bestu kaup.
Abdelkarim forstjóri Omyad ferðaskrifstofunnar sem sá um Sýrlandslegginn kom um kvöldið og færði öllum herlegt sýrlenskt sælgæti og almanak og var hann hylltur, mjög að makleikum því hann lét sér afar umhugað um hópinn allan tímann.
Rétt er líka að geta þess að Discovery í Jórdaníu gerði það heldur ekki endasleppt við okkur, bauð í dýrindis hádegisverð á Marriott við Dauða hafið og síðan var Auði afmælisbarni færð afmælisgjöf frá þeim, fallegur vasi og dæmigerður fyrir Jórdaníu.

Síðasta daginn færðum við okkur á Ebla Cham hótelið og var það fyrir velvilja Abdelkarims að við fengum þar inni, ella hefði dagurinn og ferðanóttin orðið ansi erfið. Þar fengu menn að vera þangað til við fórum út á völl kl rétt fyrir tvö um nóttina, þ.e. í gær - svo fremi ég sé ekki orðin algerlega rugluð í dögunum. Flestir gátu farið á Omyad veitingahúsið síðasta kvöldið og borðað þar og horft á Darvisjdansa og fannst mönnum það harla mikilfenglegt. Þeir sem ekki treystu sér þangað borðuðu á Ebla Cham í boði Omyad.

Ég heyri ekki betur en allir sem ég gat kvatt í dag hafi verið meira en lítið kátir og ýmsir hyggja á frekari VIMA ferðir.
Gaman væri að sjá sem flesta á aðalfundinum og sendi ykkur tilkynningu um hann þegar ég hef haft samband við þær stjórnarkonur sem hafa undirbúið hann meðan ég var í burtu. Er að verða þegjandi hás vegna mikillar raddnotkunar síðasta hálfa mánuð en hún skilar sér vonandi ef ég reyni að halda mér að mestu saman næstu daga. Mestu skiptir að allir eru glaðir.