VEL SÓTTUR AÐALFUNDUR VIMA

Fyrsti aðalfundur VIMA - Vináttu og menningarfélags Miðausturlanda var í Kornhlöðunni í dag, laugard. 30.apríl og var þar vel mætt að venju og hátt í fimmtíu manns mættu á fundinn.
Í skýrslu JK formanns VIMA kom fram að á fyrsta starfsári voru haldnir tveir almennir fundir, annar í október og hinn í janúar. Við stofnun gengu 60 manns í félagið en nú eru félagar 160. Á því starfsári sem er liðið frá síðasta fundi hefur verið ein ferð til Jemen/Jórdaníu, ein til Líbanons/Sýrlands, önnur til Sýrlands og Jórdaníu og ein til Egyptalands og hefur verið mikil ásókn í ferðirnar. Eftir viku fer svo hópur til Jemens og Jórdaníu.
Minnst var á að til athugunar væri að þeir sem skráðu sig í ferðir yrðu að vera félagsbundnir í VIMA vegna þess hve aðsókn væri mikil í þær. Einnig var greint frá stöðu Maherheimsóknarmála og vikið að sjóðstofnuninni sem á að styrkja jemenskar stúlkur í nám og veita aðstoð til stúlkna í flóttamannabúðum Palestínumanna í Líbanon.
Loks var sagt frá ferðum 2006 og lá frammi kynningarblað um þær. Auk þeirra ferða sem þegar hafa unnið sér sess stendur til að fara til tveggja nýrra áfangastaða Óman í febrúar og Íran í september.
JK benti á að það væri aðkallandi að menn skráðu sig í ferðir með góðum fyrirvara enda hafa margir tilkynnt um áhuga á þeim öllum.
Guðlaug Pétursdóttir, gjaldkeri kynnti reikninga félagsins og endurkosin voru í stjórn:
Jóhanna K, formaður
Guðlaug Pé, gjaldkeri
Ragnheiður Gyða, ritari
Edda R varaformaður
og Birgir Johnsson varamaður í stjórn.
Guðrún S. Guðjónsd. er áfram endurskoðandi félagsins.


Að loknum aðalfundarstörfum talaði Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður um ferð nokkurra íslenskra þingmanna til Palestínu og Ísraels fyrir nokkru. Hún sýndi og myndir þaðan og höfðu myndir og frásögn mikil áhrif á viðstadda og var Guðrún margs spurð.

Nokkrir gerðu upp félagsgjöld en annars munu gíróseðlar einnig verða sendir út á næstunni. Aðrir lýstu vilja sínum til að leggja í Fatímusjóðinn og svo var skrafað yfir kaffi og te og hnallþórum og fundi slitið kl. rúmlega fjögur.