Sálin er enn á leiðinni

Góða kvöldið aftur
Nú hef ég sofið í rétta og slétta sextán tíma en sálin er enn ókomin en verður vonandi skroppin inn þegar ég vakna í fyrramálið.
Taskan eina sem varð eftir í London er komin í hendur eiganda síns.

Held ég hafi náð að kveðja flesta á Keflavík sl. nótt en við munum síðan hittast eftir nokkrar vikur þegar allir hafa sortérað sig og sínar myndir.

Þetta var afskaplega góður hópur, mikil samstaða og þó svo að Petra og Wadi Rum, Dauða hafið og fleira í Jórdaníu verði ugglaust eftirminnilegt grunar mig að Jemen verði þó það sem upp úr stendur. Andríki var verulegt í ferðinni og Einar var þar atkvæðamestur. Þann kveðskap set ég inn á síðuna fljótlega svo og kemur þar vísa sem Guðmundur Pé. flutti í Sanaa sem og ljóð Elísabetar til bílstjóranna og við fleiri tækifæri.

Meðal annarra orða: Allmörg imeil bíða afgreiðslu, er verið að spyrja um Sýrlandsferð í haust og pantanir fyrir næstu ferðir. Þessu svara ég á næstu dögum. Enn hefur ekki verið ákveðið með haustferð. Einnig mun ég á næstunni gera ítarlegri drög að Ómanferð í febrúar og Íranferð um haustið. Bíð eftir tilboðum í flugferðir og rek á eftir því fljótlega.

Einnig stendur sú áætlun að halda fund í júní um næstu ferðir og þeir sem ekki hafa látið mig vita nú þegar ættu að hafa samband. Læt ykkur vita nánar um það áður en langt um líður.

Hlakka til að hitta Egyptalandsfara á mánudagskvöldið kemur.