Fyrirspurnir um haustferðir- spurningar og svör

Góðan daginn, vænu félagar

Þó svo að ferðaáætlanir hafi verið kynntar berast enn spurningar til mín um hvort efnt verði til ferðalaga VIMA nú í haust.
Við því er fjarska einfalt svar. Ég verð ekki með ferðir í haust. Ástæðan er sú að ég áforma að dvelja í Íran í septembermánuði. Í október er svo kennsla hjá Mími símennt í arabísku og fimm kvölda námskeið um arabískan menningarheim. Í nóvember hygg ég á könnunarleiðangur til Ómans í viku eða tíu daga til að fara yfir febrúaráætlunina og kíkja á þau hótel sem við notum. Sum þeirra þekki ég en önnur ekki.

Vegna fyrirspurna um Sýrland/Jórdaníu í apríl bendi ég á að hún hentar einkar vel kennslufólki þar sem menn þurfa ekki að taka sér marga aukafrídaga. Þetta mættu VIMA félagar láta ganga áfram til þeirra sem eru áhugasamir og hafa ekki netfang.

Að gefnu tilefni: Maher hefur ENN ekki fengið vegabréfsáritunina. Síðustu fréttir eru þær að líkast til gangi það þó í gegn á morgun, mánudag. Ekki má það öllu seinna vera en þá verður loks hægt að hnýta síðustu endana.

Á fundinum s.l. þriðjudag lét Einar Þorsteinsson mig hafa fjöldann allan af diskum með myndum úr Jemen/Jórdaníuför í maí. Ekki þarf að fjölyrða um að þær eru í einu orði sagt frábærar og mun ég biðja tæknistjórann okkar að setja eins margar og hægt er inn á síðuna. Maður fær hreinlega vatn í munninn og vill helst stökkva af stað aftur þegar rennt er yfir myndirnar.
Í leiðinni minni ég á ferðasögu Erlu Magnúsdóttur úr þeirri ferð sem er hér á síðunni til hægri.

Þakka svo fyrir góðar undirtektir við Fatimusjóð og Perlum og steinum. Hafið samband út af því og öðru og skrifið gjarnan í ábendinga og tillögudálkinn. Það skilar sér allt.

Ítreka í lokin að óákveðnir Íransfarar ættu að hafa samband fyrr en seinna.