Góðar fréttir af sjóðsmálum ! Verið nú með!

Í morgun fékk ég upplýsingar frá Jemen um peningamál varðandi það að styrkja Fatímu í Þúla í Jemen til náms. Jemensk kona, sem einna fyrst lauk læknanámi þar í landi hefur fallist á að verða fjárhaldsmaður hennar. Nú er verið að kanna með menntaskólanám hennar en einnig er augljóst af undirtektum að við getum tekið fleiri stúlkur og lagt fram peninga til að þær komist í háskóla. Íslenska konan Tanya Alameer sem hefur verið að athuga þetta fyrir mig segist hafa þó nokkrar stúlkur í huga sem hún telji tvímælalaust að ættu að komast í nám líka.
Hún segist geta útvegað þeim örugga og trausta fjárhaldsmenn sem mundu sjá um þá hlið svo peningarnir nýttust til fulls.

Mér fannst skemmtilegt að þessar upplýsingar skyldu berast til mín 19. júní!

Ég hef skrifað íslenskri konu, sérfróðri, og beðið hana að gera drög að skipulagsskrá og vonast til að hún geti annað hvort gert það sjálf eða ráðlagt mér í því efni. Það er ekkert vit í öðru en hafa þetta pottþétt svo allt komi að gagni. Einnig sagði ég henni frá verkefninu í flóttamannabúðunum Palestínumanna í Sjabra og Sjatila í Líbanon. Þar hafa nokkrir íslenskir hópar lagt hönd á plóg og með þessu mætti gera þá hjálp meiri og markvissari.

Ég hef tekið eftir því að nokkrir hafa lagt reglulega í sjóðinn og þakkir eiga allir fyrir það. Birti aftur reikningsnúmerið 1151 15 551130 og kt. 1402403979 ef þið viljið leggja þessu lið. Þegar formleg sjóðstofnun er komin í kring segi ég svo frá því hér.

Þegar henni er lokið, skipulagsskrá liggur fyrir ætla ég svo að kynna þetta opinberlega og leita eftir stuðningi frá fyrirtækjum líka. Það væri ofboðslega gaman ef við gætum haft þetta myndarlegt. Ein stúlka í Jemen sem kemst í nám er stórkostlegt, þar sem konur hafa ekki fengið tækifæri. Tvær stúlkur væri enn betra. Að ekki væri nú talað um þrjár eða fjórar. Það væri mikill og merkilegur áfangi og við mættum vera ánægð með að leggja lóð á vogarskál. Ég er viss um að þeir sem hafa farið í Jemenferðirnar styrkja þetta. En vonandi langtum fleiri líka.

Ég er svo kát í dag yfir því að þetta virðist nú að komast á rekspöl. Mér þætti afar vænt um ef þið vilduð láta þetta ganga til fleiri, t.d. ættingja og vina sem vildu vera með. Ef margir leggja þó ekki væri nema fimm hundruð til þúsund krónur á mánuði í verkefnið erum við á grænni grein. Íhugið það og kærar þakkir til þeirra sem þegar eru með.

Minni svo á fundinn á þriðjudaginn kl. 17,30 í gamla stýrimannaskólanum við Öldugötu(fyrir enda Stýrimannastígs)
Nú lítur minn listi svona út:
Áhugsamir um Íran 39 ( ef svo fer sem horfir gætu orðið 2 Íransferðir)
Óman 24 (tek ekki fleiri en 25)
Sýrland 22 (miðað er við 30-32)
Jemen 14 (miðað er við 21)
Áhugsamir um ýmsar ferðir 16.
Það eru ekki allir sem komast á fundinn en eftir svörum að dæma mjög margir svo ég er hin vonbesta.
Vona að nægilega margar áætlanir verði tilbúnar. Hef diska frá Íran, Sýrlandi og Jemen og Vera Illugadóttir, ömmustelpa er að athuga hvaða tölvu Ómandiskurinn passar í.
Munið að koma stundvíslega.

Ætla að hafa með nokkur aukaeintök af Perlum og steinum ef einhverjir fleiri vilja kaupa. Kostar 500 kr og rennur allt í Fatímusjóðinn.