Góðar undirtektir við nýja útlitinu. Hér á eftir kemur svo frétt!

Það verður ekki annað sagt en góðar og miklar undirtektir hafi verið við breyttu og endurnýjuðu útliti á Hugarflugi. Takk kærlega fyrir allar kveðjur og þakkir líka til þeirra sem panta Perlur og steina í óða önn. Hef þegar sent nokkrar í pósti en allmargir ætla að taka þær með sér af fundinum næsta þriðjudag. Það fara að verða síðustu forvöð að tilkynna sig á fundinn.

Ég var spurð í gær hvort tekist hefði að safna nægilega til að standa straum af boði okkar til Maher Hafez og svarið er játandi. Þar munar mestu að síðasti hópur greiddi allur eins og hann lagði sig og er til sannrar fyrirmyndar. Einnig lögðu ein væn VIMAhjón sem þegar höfðu greitt 10 þúsund kr. til viðbótar á reikninginn svo mér sýnist allt vera í sóma hvað þetta snertir.

Nú frá því er að segja að ég hef fengið athyglisverða fyrirspurn frá þekktum músíkmönnum íslenskum um tónleikaferð til Sýrlands næsta vor. Hef byrjað stúss við það og haft samband við ýmsa kunningja sem gætu veitt liðsinni. Ekki að vita hvort úr verður en gaman að athuga það.

Hvet ykkur sem ekki hafi tilkynnt komu á fund að gera það í dag og í síðasta lagi á morgun. Hafið sömuleiðis Perlur og steina bak við eyrað.

Skaust áðan með myndir sem ég tók í Íran í febrúar s.l. í Hans Petersen og verða diskar tilbúnir á fundinum á þriðjudag. Engar listamyndir en gefa þó hugmynd. Einnig hefur ferðaskrifstofan okkar í Teheran sent mér forláta kynningardisk.


Er að bræða með mér að skreppa í Suðursveitina á morgun og vera í nokkra daga og fyrir þann tíma þarf allt að vera klappað og klárt.