Maher, Fatíma og fleira gúmmulaði

Góðan daginn og blessaðan
Hillir loks undir að það sé hægt að hefja skipulega vinnu við Fatímustyrkjamálin, því ég hef fengið konu í Jemen ( hún er hálf íslensk náttúrlega og búsett í Jemen) til að gera nákvæma áætlun um kostnað við það að styrkja Fatímu og etv. tvær stúlkur aðrar til náms. Þegar hún hefur látið mig vita um þetta sem ég býst við að verði áður en langt um líður verður svo búin til ítarleg reglugerð um sjóðinn og farið að leita eftir framlögum í hann á markvissan hátt.

Það er samt lofsvert og skal þakkað virktavel að nokkrir leggja inn á reikninginn mánaðarlega upphæð frá 500-2500 kr. Reikningsnúmer er 1151 15 551130 og kt. 1402403979.

Varðandi Maher hinn elskulega og væntanlega gest VIMA er það að frétta að vegabréfsáritun hans hefur ekki verið afgreidd enn ! Ótrúlega mikil skriffinnska. Hann reiknar þó með að fá svar og við skulum vona það verði jákvætt þegar hann skundar í sendiráðið mánudaginn 20.júní. Hef sömuleiðis sent nokkrum hérna innanlands afrit af bréfum um málið í þeirri von að það flýti fyrir. Um leið og dagsetningar eru klárar á komu Mahers getum við svo drifið í að hafa samband við þá sem hafa lýst vilja til að fara með Maher á hina ýmsu staði eða hafa boðið fram gistingu hér og hvar.

Fékk spurningu um það í morgun hvort ferðafundurinn þriðjudaginn 21.júní væri fyrir allar ferðirnar og það skal ítrekað að svo er. Það er orðinn vænn hópur sem hefur tilkynnt sig á fundinn og ég vona að þeir sem eiga eftir að gera það drífi í að láta mig vita. Upp á tebirgðir en einnig til að ég hafi nú nóg af áætlunum og plönum.
Augljóst er að Íransferðin er orðin full ef allir sem hafa tilkynnt sig ákveða að fara í ferðina. En auðvitað er sjálfsagt að taka niður fleiri nöfn og það skyldi enda með tveimur Íransferðum!
Það væri skemmtilegt. Þið getið lesið áætlunina hérna til hliðar á Íranlínk.
Sama máli gegnir um hinar ferðirnar. Þær eru allar hér og dagsetningar hafa verið birtar og mun ekki skeika að ráði.

Ómanáætlun í skýrri mynd er þó ekki komin. Síðustu svör frá ÓMAN voru þó að ég fengi hana á morgun. Ástæðan er sú að ég ætla að lengja ferðina um 1-2 daga og reikna inn í fleiri máltíðir og bæta við smálegu. En þið fylgist með og þetta verður aukinheldur allt klappað og klárt fyrir
fundinn.

Hef bætt inn fáeinum orðum á línkinn um hótel í ferðunum. Bara svona smáupplýsingar.


ÍTREKA SVO ENN AÐ ÞEIR SEM VILJA KOMA Á FUNDINN OG HAFA EKKI LÁTIÐ VITA GERI ÞAÐ NÆSTU TVO TIL ÞRJÁ DAGA.
Ég er með alla á listum sem þegar hafa tilkynnt sig. Ath. það.