MAHER HEFUR FENGIÐ ÁRITUN - en Danir liggja í því

Jæja, það fór aldrei svo:
Maher Hafez hefur fengið áritun svo nú er að hafa hraðar hendur að koma honum til Íslands 6.júlí eins og áformað hefur verið.

Þetta er þó allt hið kuðlasta mál því danska sendiráðið í Damaskus sem á að sjá um að senda öll gögn til Útlendingastofnunar hefur ekki staðið sig sem skyldi.

Umsóknin barst ekki til Útlendingastofnunar hér fyrr en á mánudag og vantaði þá aðskiljanleg gögn málinu til staðfestingar.

Það má segja að ýtni mín og einstakur velvilji forstöðumanns og starfsmanna Útlendingastofnunar hafi ráðið úrslitum og var ákveðið að veita undanþágu svo Maher fær áritunina án þess að öll gögn hafi borist eins og reglur kveða á um.
Mér finnst frændurnir dönsku hafa staðið sig með afbrigðum slælega í þessu "stórmáli" því nú eru senn tveir mánuðir síðan þeir fengu fyrstu bréfin frá mér um málið.

En gleymum því. Maher fær áritun og forstjórinn Omyyad, Abdelkarim, er nú á hlaupum að kaupa miða handa honum með MALEV til Kaupmannahafnar 6. júlí og ég millifæri úr sjóðnum til hans fyrir miðanum sem verður náttúrlega dýrari af því fyrirvarinn er svona stuttur. Engar áhyggjur af því.
Kaupmannahöfn-Reykjavík-Kaupmannahöfn verður svo kippt í lag snarlega.

Gott mál og gleðilegt og má þakka Hildi Dungal og starfsliði hennar fyrir einstaklega elskulega aðstoð.


ATH reikningsnúmerið er 1147 05 401402 og kt. 1402403979 ef einhverjir vilja bætast við.