Myndakvöld hjá Sýrlands-og Jórdaníuförum

Myndakvöld Sýrlands og Jórdaníuhópsins 10.-25.apríl var haldið í kvöld í Kornhlöðunni. Þar var prýðisgóð þátttaka og fagnaðarfundir urðu með fólki. Margir voru hlaðnir myndum og Magnús kom með útbúnað til að sýna tölvumyndir og varð myndaskoðun til þess að rifja upp margt í ferðinni.
Við snæddum ágætis kjúklingasalat og kaffi og menn undu sér vel. Nokkrir notuðu tækifærið og létu í ljós hug á að koma á ferðafundinn 21.júní n.k sem er sagt frá hér að neðan og nokkrir skráðu sig raunar í ferðir á næsta ári.

JK sagði frá því að þessi hópur væri að því leyti einstakur að allir hefðu reitt fram 2000 kr. á mann til að stuðla að komu Mahers og verður haft samband við alla þá sem hafa greitt í þann sjóð og efnt til margs konar uppákoma þegar hann mætir - insjallah.
Við sátum lengi að salatáti og kvöddumst svo með virktum þegar liðið var á kvöld.

Tek fram að linkurinn Hentug reikningsnúmer er kominn á síðuna. Þar eru númerin sem menn skulu greiða félagsgjöld VIMA, annar reikningur fyrir þá sem vilja styrkja Fatimusjóðinn. Einnig verður gengið frá formlegri stofnskrá að honum og reglur samdar svo allt sé nú í lagi. Loks er svo reikningur til að borga inn á ferðirnar. Muna bara að láta kennitölu ykkar fylgja með. Vona að þetta sé skýrt og skilmerkilegt.

Þá hefur tæknistjórinn okkar fengið Egyptalandsdiska í hendur og plokkar nú út búnt af myndum úr Egyptalandsferðinni og setur inn undir nýjum link Myndir úr Egyptalandsferð.

Að gefnu tilefni er rétt að nefna að myndakvöld síðasta hóps vorsins Jemen/Jórdanía verður haldið eftir nokkrar vikur og ég sendi þátttakendum tölvupóst þar að lútandi.