ÍRANSÁÆTLUN TILBÚIN - kíkið líka á bætta og breytta Egyptalandsferð, svo og Sýrland/Jórdanía

Vek allra blíðlegast athygli á að ég var að setja nokkurn veginn fullburða áætlun um ferð til Írans inn á línkinn og hvet ykkur til að lesa það. Mér heyrist vera mikil ásókn í þá ferð og nauðsynlegt að menn láti vita sem fyrst og ekki síðar en á ferðafundinum í gamla Stýrimannaskólanum 21.júní(hefst kl. 17,30). Margir eru þegar ákveðnir og gott hvað Íran fær hressilegar undirtektir enda hægt að lofa spennandi ferð.

Þá hef ég lengt og endurbætt Egyptalandsferðina eins og sjá má á þeim hlekk.

Sýrlands/Jórdaníuferðin er líka komin í þeim búningi sem hún verður. Menn virðast fagna því að sú ferð ber upp á páska svo menn geta nýtt sér frídaga.

Jemen/Jórdanía verður í þeirri mynd sem hún var farin nú og mætir inn á sinn línk í kvöld. Sú ferð er augsýnilega að festa sig í sessi og furðar sig enginn á því sem hefur farið í hana.

Einhver smátöf er á að ég geti sett Ómanáætlun í lokamynd inn. Það verður þó fyrr en síðar.
Kíkið á þessar áætlanir, gæskurnar mínar og látið óspart í ykkur heyra.