Troðfyllir á ferðafundi í dag

Það var sérlega gaman að efna til fundarins í dag því yfir 70 manns streymdu á fundinn um ferðirnar 2006 og þó voru æði margir sem ekki gátu komið og höfðu boðað forföll. Dreift var sæmilega ítarlegum áætlunum - sem einnig má glugga í hér á síðunni til hægri.
Sumir skráðu sig í tvær ferðir, oftast Óman og Íran. Nokkrir gefa svar síðar og má það ekki vera öllu seinna en í september og í síðasta lagi október. Flestir óákveðnu svara innan tíðar.
Svo gæddu menn sér á rúsínum, döðlum og fíkjum og sötruðu te eða kaffi, skoðuðu myndir og diska og var þetta hið mesta fjör.
Nú hefur 91 skráð sig í ferðirnar og enn mega menn bætast við og hafið óhikað samband. Mér sýnist þó liggja í augum uppi að VIMA félagar vilja vera snemma á ferðinni.
Eygló Ingvadóttir sem er orðheppin manneskja og hefur þegar farið í Sýrlands/Líbanonferð og hyggur á Jemen/Jórdaníuferðina ásamt viðeigandi fylgdarliði sagði að ferðum til Miðausturlanda mætti líkja við veiru. Hún væri ólæknandi og blossaði upp af slíkum krafti að ógerlegt væri annað en taka mark á henni.

Ég bið þá sem eru að hugsa sitt ráð að hafa samband fljótlega og nýir eru velkomnir.

Þá voru allnokkrir sem greiddu félagsgjöld og ég hvet þá sem ekki voru með peninga handbæra að kíkja á línkinn Hentug reikningsnúmer þar sem þið getið séð hvar á að leggja inn 2 þús. kr. félagsgjald.

Loks skal nefnt að myndakvöld Jemen/Jórdaníuhópsins í maí s.l. verður á næstunni og ég hef samband við alla í þeirri ferð og vona að allir í þeim góða og skemmtilega hóp geti komið.

Takk fyrir sérstaklega góða stund, þröngt máttu sáttir sitja og tóku því allir með gríni og jafnaðargeði.