Tvær Íransferðir 2006 - tek nokkra á biðlista í Óman

Nýju áfangastaðirnir tveir, Íran og Óman hafa sannarlega gert lukku hjá VIMA félögum.


Eftir öllum sólarmerkjum að dæma verða tvær ferðir til Írans á árinu 2006, önnur - og þar með fyrsta hópferð íslenskra sem ég veit um- upp úr miðjum ágúst og hin viku af september. Ef einhverjir fleiri eru að íhuga Íran þurfa þeir greinilega að ákveða sig fyrr en síðar. Nú eru 36 ákveðnir og 5 að bræða þetta með sér.

Ómanferðin - sem er einnig fyrsta hópferð Íslendinga til Óman- er fullskipuð nema forföll verði en get tekið 2-4 á biðlista.

Þetta eru hressilegri undirtektir en ég bjóst við. Sýrland/Jórdanía og Jemen/Jórdanía eru á góðu róli en ég hvet sérstaklega til að menn tilkynni sig í Sýrlandsferðina fljótlega vegna þess við erum þar um páska sem er annatími - svo fremi sem hægt er raunar að tala um annatíma í ferðaþjónustu í þessum löndum. Nú eru 24 bókaðir í Sýrlandsferð og má bæta sex við. Þarf að hafa það á hreinu áður en mjög langt um líður.

Bendi Ómanförum enn og aftur á að þeir þurfa að greiða staðfestingargjald 1.september til að vera öruggir.

Varðandi Íran: nokkrir hafa látið mig vita í hvora ferð þeir vilja fara. Ef ekki tekst að raða því niður svona nokkurn veginn til helminga þurfum við að draga um það. Ágúst er góður mánuður veðurfarslega í Íran og taldi hann heppilegri en júní enda Jemen/Jórdanía í maí.

Mun svo boða Ómanfara til fundar ekki seinna en um 20.ágúst. Er að láta yfirfara áætlunina. Ég minntist á að bæta við 2 dögum og ef það breytir ekki verði að neinu marki finnst mér það heillaráð.