Ferð með Maher í Þjórsárdal og Landmannalaugar

Sunnudagsmorguninn 10. júlí héldu Margrét og Þóra J. austur fyrir Fjall í suðaustan úrhelli til Jónu og Jóns Helga í Hveragerði, gestgjöfum Mahers þá stundina. Þar var okkur boðið í kaffi og kræsingar meðan beðið var eftir restinni af ferðahópnum, þeim Álfhildi, Diddu og Erlu

Síðan var ekið til Selfoss að sækja villtan lax á kvöldgrillið og þaðan haldið áfram áleiðis í Þjórsárdal með stuttu stoppi í Árnesi, en þá höfðu himnagyðjurnar heldur betur látið rofa til með tilheyrandi fjalla- og jöklasýn. Því næst var stoppað við þjóðveldisbæinn svonefnda – þ.e. endurbyggðan Stangarbæ og heimakirkju – áður en haldið var að rústunum á Stöng.

Næsta stopp var á fögrum stað innst í Spönginni innan við Stöng og því næst var haldið í ferðamiðstöðina í auðninni í Hrauneyjum – sem við gáfum nafnið Café Bagdad – og þaðan var síðan brunað eftir þvottabrettuðum malarvegi og yfir ár inn í Landnmannalaugar.

Í Ferðafélagsskálanum á staðnum var Maher og haremi úthlutað langrúmi undir súð, sem minnti einna helst á setin í Stangarbænum eða baðstofufyfirkomulag til sveita forðum. Þegar svo var komið ferðasögu, höfðu himnagyðjurnar skrúfað frá vatnskrananum í efra – og það kallaði því á ómælda aðlögunarhæfni að hafa til laxinn með meðlæti og halda lífi í útigrillinu í himnasturtunni utan dyra ..... en þeirri baráttu fylgdist fjölþjóðlegt lið ferðamanna með af óskiptum áhuga. Og um síðir var sest að herlegri kvöldmáltið í eldhússkála. Áður en lagst var til hvílu létum við líða úr okkur í Landmannalaugunum, og langrúmið ku hafa verið fullskipað þegar eina stund vantaði í óttu.

Mánudaginn 11. júlí: Eftir sameiginlegan morgunverð í seinna fallinu var haldið í göngu upp á hraunið ofan við Ferðafélagsskálann og til baka um Grænagil.
Um nónleytið héldum við aftur til byggða eftir Landmannaleið sem reyndist óvenju mjúk undir dekkjum og greiðfær eftir því.
Stoppuðum austan við Búrfell við fagra Fossahóla og þaðan héldum við síðan að Hellum í Landsveit til að sýna Maher stæsta manngerða helli landsins, Stórahelli, þar sem m.a. má sjá rist búmerki bænda á hellisveggjum og jafnvel einstaka rúnaristur. Svo lengi sem menn muna voru manngerðir hellarnir í Rangárvallasýslu nýttir af bændum sem fjárhús, hlöður, búr o.s.frv. allt fram á liðna öld, en ekki er vitað hversu gamlir elstu hellarnir kunni að vera.
Á hellisveggjum Stórahellis á Hellum er einnig að finna bogadregnar syllur og jafnarma krossa í bogalöguðu lofti innan við upphaflegt hellisop (sem fyllt hefur verið upp í með grjóthleðslu) en slíkar minjar er að finna í ófáum manngerðum hellum í Rangárvallasýslu, sem bent gætu til kristinna trúariðkana í hellunum forðum.
Það fannst Maher ekki síður líklegt því sambærilega neðanjarðarhella væri að finna frá elstu klaustrum í Sýrlandi, en aftur á móti hefur áhugann skort hjá okkur enn sem komið er að verða við tillögum fornleifafræðinga að beita aðferðum fornleifafræðinnar til að varpa ljósi á upphaflega notkun og aldur manngerðu hellanna okkar.

Úr Landsveitinni var haldið til VIMA félaganna Jóhönnu og Brahims á Selfossi sem var endastöð Mahers þann daginn. En þar fræddu þeir Maher og Brahim sem er frá Marokkó okkur yfir kaffibolla um klassíska arabísku, sem þeir félagar beittu fyrir sig eins og ekkert væri.
Margt fleira var spjallað þar til við stöllur kvöddum þau hjón og Maher og héldum vestur fyrir Fjall í okkar heimaborg.