Ferð til norðlenskra sveita og Maher á alþingi

Í gær, mánudag, leiddi Mörður VIMA-félagi og þingmaður Maher um alþingishúsið og sagði honum frá sögu húss og þings og hafði Maher mikið gaman að. Síðan fengu þeir sér smörrebröd á Jómfrúnni ásamt Ragnheiði Gyðu og Linda skáld og eiginkona Marðar bættist í hópinn og heilsaði upp á Maher.

Seinni hluta dags í gær var okkar maður svo á rölti um miðbæinn og var sennilega ljómandi dús við það. Í morgun, þriðjudag ætluðu Hulda og Örn síðan að bjóða honum upp í Laxnes í Mosfellsdal og þar stóð til að hann færi á hestbak.

Um sl. helgina fór Maher með nýjum hópi norður í land og pistill um þá ferð kemur hér:

Ferð Mahers Hafez til Norðurlands í fylgd heiðurshjónanna Ingu og Gunnþórs, Þórdísar Þorgeirsdóttur, Jóns Sigurvaldasonar og Sigurbjargar sem þennan pistil ritar.

Upphaflega áttum við að fara með Maher í Suðursveitina en vegna þess hvernig veðurspáin var fyrir helgina ákváðum við að taka stefnuna á Norðurland í staðinn. Ákveðið var að taka daginn snemma og því var lagt á stað úr Vesturbænum klukkan níu.
Þoka og rigning var alla leiðina að Geysi en þar stoppuðum við áður en haldið var á Kjöl. Þó að létti til eftir því sem norðar dró misstum við af fjallasýninni í vesturátt en Hofsjökull og austurfjöllin sáust nokkuð vel. Stoppað var á leiðinni að Beinhól eftir að hafði verið sögð sagan af Reynisstaðabræðrum.
Þar var tekið upp nesti og Jón gaf Maher að borða hrútskjamma og rófustöppu. Inga og Gunnþór gáfu okkur að smakka þurrkaðan silung úr Þistilfirðinum sem hvorug okkar Þórdísar hafði smakkað áður. Öll vorum við sammála um að það væri hreint salgæti og borðuðum við hann eins og snakk það sem eftir var af ferðinni.

Eftir matinn bauð Inga Maher að keyra fjallajeppann sinn, nýjan Mitsubishi af flottustu gerð á íslenskan mælikvarða, og þarf vart að taka það fram að slíkan bíl hafði Maher aldrei keyrt áður. Inga hafði eftir stutt stopp á Hveravöllum fært sig fyrir í bílinn til Þórdísar en Jón kom yfir til okkar Mahers.

Bíleigendurnir horfðu því á eftir okkur þeysa af stað og er ég ekki í nokkrum vafa um að það var nánast óraunveruleg upplifun fyrir Maher. Enda vorum við ekki komin niður í Blöndudal þegar hann fór að reyna að sannfæra mig um að ég yrði að eignast svona bíl.

Blöndudalurinn heillaði Maher og stoppuðum við til að taka myndir af folöldum og dást af fegurð dalsins. Síðan var haldið í Skagafjörðinn þar sem áð var í Varmahlíð og þar í ferðamannaverslun var okkur boðið upp á kaffi meðan við versluðum. Skagfirðingar kunna líkt og Sýrlendingar að slappa af.

Á Akureyri var gist á Gulu Villunni í Brekkugötunni og þaðan löbbuðum við á Bautann þar sem Maher fékk að smakka svartfugl. Eftir matinn var lagt upp í skoðunarferð um bæinn og fannst Maher Akureyri vera fallegasti bærin sem hann hefði komið í á Íslandi.
Hann var óþreytandi að taka myndir, heillaðist af húsunum og gróðrinum. Þegar við gengum framhjá Sigurhæðum sagði hann okkur að í Sýrlandi væru börn látin syngja þjóðsönginn á hverjum degi í skólanum. Það er vonandi að engum detti í hug að gera slíkt hér á landi.

Hið heimsfræga næturlíf Íslendinga fór ekki framhjá Maher og átti hann erfitt með svefn vegna drykkjuláta sem vörðu alveg fram undir klukkan sex um morguninn.

Á sunnudagsmorguninn var stefnan tekin á Mývatnssveit með viðkomu við gömlu brúna á Fnjóská og þar á eftir skoðuðum við Goðafoss. Það birti til í Mývatnssveit fyrst var stoppað við upptök Laxár, síðan farið í göngferð um Kálfatjarnarströnd, þar næst var Víti skoðað og að lokum fórum við upp að útsýnisskífu við Námafjall. Þar var svo hvasst að lá við að við fykjum um koll en útsýnið var frábært.
Þórdís stakk uppá að við fengjum okkur hverabrauð með taðreyktum silung og kjötsúpu í Gamla bænum í Reykjahlíð. Eftir matinn var lagt á stað suður og keyrði Maher jeppann úr Mývatnssveit að Brú í Hrútafirði. Við borðuðum kvöldmat á Gauksmýri í Miðfirði. Maher fékk sér sjávarréttasúpu með heilum humarbitum sem honum þótti góð en við hin létum lambakjötið duga. Á eftir var húnvetnskt kaffi með rababarapæi.
Í Húnavatnssýslum var hávaðarok en þurrt að mestu og hiti um 5 stig þannig að í norðurferðinni fékk Maher smásýnishorn af íslensku sumarveðri. Það voru svo þreyttir en sælir ferðalangar sem kvöddust við Hörpugötuna um miðnætti.