Ferð um Reykjanesið með Höllu Guðmundsd og Fríðu Björnsd

Föstudag 8.júlí
fór Maher Hafez með þeim Guðrúnu Höllu Guðmundsdóttur og Fríðu Björnsdóttur í dagsferð á Reykjanesið. Halla sendi mér þennan skemmtilega pistil áðan og finnst tilvalið að þið kíkið á hann.

"Ferðalag okkar Fríðu með Maher um Reykjanesið gekk vel.
Veðrið hefði mátt vera betra, hvasst og grenjandi rigning með
köflum. Það minnti gestinn á sýrlenskan vetur, bara kaldara.

Við byrjuðum á að skoða mjög fróðlega sýningu í orkuverinu í
Svartsengi. Gengum um myndlýsta gjá í kjallara þar sem gefin
var afar glögg mynd af jarðfræðinni og aðferðum gufuvinnslunnar.
M.a.s. gátum við framkallað jarðskjálfta með því að ýta á hnapp, þ.e.
við fengum hávaðann sem var ærinn. Ég held að Maher hefði tekið
næstu flugvél heim hefðum við getað “búið til” hreyfinguna líka.

Þá brunuðum við út á Garðskaga.
Í Sandgerði skoðuðum við sjávardýrasafn. Þar skrifaði hann pistil á sínu
móðurmáli í gestabókina. Fyrsta arabískan í þeirri bók. Einnig snæddum
við þar á “Vitanum” afar góðan steiktan þorsk, og hvítkálssúpu á undan.
Vorum öll að bragða slíka súpu í fyrsta sinn. Hún var góð.

Þá lá leið okkar um Keflavík og að Reykjanesvita. Þar stóð okkar maður á bjargbrún í hvassviðrinu og myndaði brimið með símanum sínum!

Næsti bær var Grindavík og meira brim. Áfram, áfram um hlykkjóttan malarveginn til Krísuvíkur. Þar sáum við Grænavatn og skoðuðum hverasvæðið við Seltún. Óteljandi hringtorg mættu okkur í nýjast hverfinu í Hafnarfirði. Þar var eini staðurinn sem mér tókst að villast. Á endanum komumst við í miðbæinn þar og fengum okkur kaffi.
Sæl og svolítið lúin komum við svo í Hörpugötuna og kvöddumst með virktum."

Þessa stundina er Maher í ferð með sex VIMAfélögum til Þingvalla, Gullfoss og Geysis. Síðan bjóða Jón Helgi og Jóna í Hveragerði þeim í kvöldverð heima hjá sér í Hveragerði.