Fyrirlestur um Óman á menningarnótt og fleira arabí

Ég minntist á fyrr í sumar að hingað væri væntanlegur palestínskur Dani sem ætlaði að halda fyrirlestur um Óman.

Nú tilkynnist það hér með að þessi ágæti náungi, Hussein Sjehadeh flytur fyrirlestur um Óman í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu kl. 14 e.h. á laugardegi,( 20.ágúst) menningarnætur. Hann ætlar að tala um Óman einkum og sér í lagi. Þema safnsins er íslenskt-arabískt-danskt og verður lesið upp úr aðskiljanlegum bókum síðari hluta dagsins, á þessum þremur tungumálum.

Einnig verður sýning í safninu með flíkum og munum frá löndum araba.

Hussein Sjehadeh er fæddur í Palestínu en flutti ungur maður til Danmerkur. Held ég fari rétt með að það hafi verið í kringum Sex daga stríðið 1967. Hann hefur unnið sem sjálfstæður blaðamaður í Danmörku allar götur síðan.
Ég hitti Sjehadeh í Óman 1987 en hann hefur tekið ástfóstri við landið og þjóðina og fer þangað a.m.k einu sinni á ári. Einnig ferðast hann vítt og breitt um lönd Araba og skrifar um þetta í dönsk blöð. Hann er sömuleiðis mjög góður ljósmyndari og verður með sýningu á ljósmyndum frá Óman í Borgarbókasafninu.

Sjehadeh hefur tvívegis komið til Íslands áður, í fyrsta skiptið á vegum Blaðamannafélagsins og hélt fyrirlestur í Norræna húsinu og seinna á vegum félagsvísindadeildar H.Í og talaði þá þar og víðar.

Hvet sem flesta VIMU félaga til að leggja leið sína í Borgarbókasafnið kl. 14 á menningarnæturdaginn og hlusta á Sjehadeh.