Gleði og ánægja í Maherveislunni í gærkvöldi

Ánægja og gleði var ríkjandi í veislunni sem VIMA félagar efndu til Maher Hafez til heiðurs í gærkvöldi, þriðjudag 12.júlí í Rafveituheimilinu við Elliðaár. Um sextíu manns komu þar saman og urðu fagnaðarfundir þegar Maher heilsaði gömlum ferðafélögum. Hann virtist muna eftir öllum, kættist mjög þegar hann hitti Bjarnheiði og sá hvað hún var hress og spræk og sagði raunar að hann hefði alltaf talið að þrek sem hún sýndi þegar hún fótbrotnaði í Sýrlandsferðinni
og lét það ekki hefta sig væri einstakt og á fárra færi. Um leið og Maher sá Einar bar hann hönd upp að eyra, enda Einar þekktur fyrir eftirminnilega eyrnalipurð. Og mætti svo lengi telja.

Veislunefndin hafði mætt síðdegis, sett upp borð, skreytt með blómum og kertum og á skjá voru sýndar myndir úr aðskiljanlegum Sýrlands/Líbanons/Jórdaníuferðum.

Maher sagði við mig að hann væri dolfallinn og hrærður yfir því að allt þetta fólk - og raunar fleiri en gátu komið til fagnaðarins - hefðu tekið sig saman um að bjóða sér til Íslands og vildu svo ofan í kaupið heiðra sig með þessari veislu.

JK bauð gesti velkomna og sagði fólki lítillega frá því sem Maher hefði séð fyrstu vikuna á Íslandi og þakkaði öllum kærlega fyrir að hafa lagt málinu lið.
Svo var hrópað kröftuglegt ferfalt húrra fyrir Maher.

Að því búnu skar Lalli kokkur ljúffengt lambakjöt ofan í viðstadda og allir tóku hressilega til matar síns. Í eftirrétt voru rjómapönnukökur og kaffi.

Maher þakkaði síðan með góðri ræðu og ítrekaði ánægju sína með Íslandsveruna. Hann sagði að fyrir komuna hefði honum aldrei dottið í hug að til Íslands gæti verið eftirsóknarvert að fara í frí en nú hefði hann skipt um skoðun og það hressilega. Hann talaði um birtuna á nóttunni og fagra náttúru sem hefði heillað hann og hann hefði ekki trúað því að óreyndu að slíka fegurð væri að finna.

Aðrir sem töluðu voru Jón Helgi úr Hveragerði og Elísabet Jökulsdóttir og mæltist báðum snöfurlega og skáldlega að vanda.

Menn sátu síðan yfir kræsingum og skrafi og áttu góða stund og glöddust einnig yfir þessu tækifæri til að hittast.

Í veislulok tók Akranesfjölskyldan Maher síðan með sér í Borgarfjörðinn og stendur til að þau fari með hann á Snæfellsnes og út í eyjar og ef til vill fleira.

Veisludaginn hafði Maher farið ásamt marokkoskum VIMA félaga og konu hans, í Skálholt og síðar rennt við á Stokkseyri og Eyrarbakka. Hjá þeim gisti hann nóttina áður.

Bíð nú eftir að ferðahópurinn sem fór með gesti okkar í Þjórsárdal og Landmannalaugar skili inn smáferðaskýrslu.

Að gefnu tilefni: Ómanfarar verða boðaðir til fundar síðla ágústmánaðar. Nokkrir skráðu sig áhugasama í veislunni og bið ykkur að láta vita ef þið hafið hug á að sækja þennan fund.

Myndakvöld Jemen/Jórdaníuhópsins hefur dregist af ýmsum ástæðum en verður tilkynnt áður en langt um líður. Verið svo góð að fylgjast með því.