Gullni þríhyrningurinn á laugardag

Maher
og Vima-félagar; Þóra J., Herta, Birna, Jón Helgi, Guðlaug Pé og Júlíus Kolbeins fóru hinn klassiska hring sem ferðamenn fara, Gullfoss, Geysir og Þingvellir s.l. laugardag.

Komið í Hveragerði kl. 10 á laugardagsmorgni til Jóns Helga og Jónu í morgunkaffi ala Jóna, nýbakað bananabrauð og ilmandi kaffi.Jón Helgi var á sightseeing-skónum og fékk til liðs við okkur Júlíús vin sinn sem bílstjóra.

Fyrst farið að Gullfossi og dvalið góða stund í sýnishornaveðri. Gullfoss heillaði Maher, myndaði mikið með símanum og hefði glaður viljað hafa upptökutæki til að eiga kraft fossins á bandi.Regnbogann vantaði alveg en hinn stillti Maher var frá sér numinn og lét veðursýnishornin ekki á sig fá. En þessi dagur bauð upp á afskaplega margbreytilegt íslenskt sumarveður. Við nöldruðum en Maher var sæll.
Aröbum finnst rigningin góð og fossar heilla þá upp úr stígvélunum.

Næst kom Geysis-svæðið.Hverasafnið skoðað og höfðum við íslendingarnir ekki séð það áður og vorum öll mjög hrifin, fallegt og fagmennskulegt safn. Gaman að sjá þar bandaríska skólakrakka með glósubækurnar.Strokkur gaus nokkrum sinnum okkur til heiðurs og er við höfðum fengið nægju okkar af hverum og hveralykt var stungið sér inn á Hótel Geysi í súpu og salat.

Síðan var skundað á Þingvöll. Þar var hin ægifagra Peningagjá fyrsta stopp og krónan góða látin detta og óskir þuldar.Nestispakkinn opnaður, kaffi og súkkulaðikex maulað. Við það hresstist liðið og var gengið um Almanngjá og að Drekkingarhyl.
Alltaf jafn gaman að koma á Þingvöll, fegurðin og sagan sem við kunnum misvel hefur áhrif á okkur íslendingana sem vorum enn að býsnast út í veðrið en Maher okkar var sæll og yfir sig hrifinn.(Reyndar feginn að vera laus við rústirnar)

Haldið til Hveragerðis þar sem Jóna beið okkar með dýrindis laxapottrétt og rabbabaraköku sem við gerðum góð skil. Jóhanna K og Elísabet Jökulsd. brunuðu austur til að vera með okkur í þessari veislu. Urðu síðan fjörugar umræður um Þingvelli og þinghald áður fyrr.

Maher var mjög ánægður með fyrstu dagana. Hann tók sérstaklega fram að hann teldi að Guðrún Halla, sem hann var í ferð með á föstudeginum um Reykjanesið ásamt Fríðu Björnsd. hlyti að vera snjallasti bílstjóri á Íslandi og þó víðar væri leitað. Hún hefði farið um malarvegi eins og hún æki á hraðbrautum.

Við kvöddum Maher sem gisti hjá Jóni og Jónu. Aðrir Vima-félagar tóku við honum á sunnudag. Þá lá leiðin í Þjórsárdal og síðan í Landmannalaugar.

Við skemmtum okkur afskaplega vel, og heyrðum ekki annað á Maher en hann væri hæstánægður með daginn.

Viljum við sérstaklega þakka Jónu og Jóni Helga fyrir frábæra móttökur