Líbanon

Ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Manstu þegar við sátum í sólskininu
á veitingastaðnum við sjóinn í Líbanon,
og borðuðum krabba, sverðfiska og sardínur,
og það var hlegið svo mikið,
og skálað svo mikið
og talað svo mikið.

Eða í Biblos þarsem Fönikíumenn
höfðu hreiðrað um sig
og ég settist inní einn reitinn
og hitti þar konu úr fortíðinni
og spurði hana um hvað lífið hefði snúist
fyrir fimm þúsund árum
og hún sagði: Við erum að bíða eftir betri tíð.

Og þarna fann ég hjartastein í gömlu leikhúsi,
hvítan hjartastein og annað hjarta inní honum,
og nú er hann í hjartasteinasafninu mínu
en hjarta mitt grætur fyrir Líbanon.

Við gengum um göturnar
og allir svo kátir að sjá okkur,
fórum í flóttamannabúðirnar
og gátum ekki tekið með okkur sársaukann
svo hann elti okkur,
skoðuðum fjöldagröfina
sem ég hélt að væri bara í fréttunum,
heimstískuna á torgum,
stimamjúka þjóna og fagrar byggingar,
sumar með kúlnagötum,
og uppí hæðirnar
að Maríustyttunni
sem gnæfði yfir Beirut.

Og þarna hitti ég á götuhorni
amerískan hermann sem hafði farið úr hernum
til að giftast Arabastúlkunni sinni
og afgreiða í búðinni hennar,
en aðallega tilað brosa og laða að kúnnana,
við þræddum fjallvegi
þar sem kúrðu lítil þorp
og fólkið talaði biblíumál,
ég drakk heilagt vatn í klaustri,
það kom auðvitað dúfa
og úlfaldar í eyðimörkinni,
enn mátti finna rómverska guði
önnum kafna í sínum rústum,
og allstaðar komu börnin þjótandi
einsog eldibrandar með slæður og klúta,
og brosin sín frá hjarta til hjarta.

Nú rignir yfir þau sprengjunum
og flísarnar skerast inní hjartað,
ég hef komið til Líbanon
þessvegna grætur hjarta mitt,

og þú þekkir mig.