Ljósmyndir Einars komnar inn- skoðið þessi listaverk

Einar Þorsteinsson sem var í Jemen og Jórdaníuferðinni í maí s.l. lét mig hafa diska með myndum sem hann tók í ferðinni. Tæknistjórinn okkar Elísabet Ronaldsdóttir hefur nú sett hluta myndanna inn á linkinn Myndir Einars Þorsteinssonar.

Elísabet stakk upp á að hafa myndirnar undir sérstökum tengli enda eru þær margar hreinustu listaverk og verðskulda að menn skoði þær.

Hvet ykkur til að gefa ykkur tíma og virða fyrir ykkur myndirnar.
Bendi í leiðinni á frásögn Erlu Magnúsdóttir Ferðasaga frá Jemen sem er ákaflega athyglisverð aflestrar.
Skoðið myndirnar og sögu Erlu og skrifið endilega nokkur orð og segið álit ykkar.

Fékk fyrirspurn um Jemen vegna þess að aldrei þessu vant hefur það komist í fréttir síðustu daga vegna ókyrrðar. Létu menn í ljósi óánægju með hækkun á olíuverði og kom til óeirða. Ég sendi kunningjum í Sanaa fyrirspurn um þetta. Þeir segja að öldur hafi nú lægt og allt sé með friði og spekt og lífið gangi sinn vanagang.

Bendi væntanlegum Sýrlands/Jórdaníuförum á að senn fer að verða nauðsynlegt að tilkynna sig, þ.e. nýir þátttakendur. Það sama gildir um maíferð til Jemen og Jórdaníu.