Maher í sjöunda himni á Íslandi

Maher Hafez, gestur VIMA-félaga, er kominn til landsins og er himinlifandi eftir fyrstu kynni. Hann fór í Þjóðminjasafnið í morgun þar sem Þóra Kristjánsdóttir leiddi hann um salarkynni og sagði honum sögu ýmissa merkra gripa. Svo var löng gönguferð í miðbænum og honum þótti ekki verra þótt veðrið væri þungbúið. Þetta væri fínt gönguveður og ágætt að losna við 36 stiga Damaskushita.
Einnig hafði hann samband við nokkra íslenska vini sem hann langaði að heyra í.
Á næstu dögum verða svo ljúfir og liðlegir félagar á flandri með Maher á hina ýmsu staði og vonandi að það gangi allt prýðilega.
Það verður svo greinilega mjög góð þátttaka í kvöldverðarboðinu þar sem meirihluti þeirra sem stuðlaði að því að hann kæmi til Íslands, munu mæta og borða lambalæri og pönnukökur.
Hef enn ekki fengið svar frá nokkrum og minni á að frestur til að tilkynna sig í boðið er um hádegi föstudags, 8.júlí því við verðum að gera kokkinum viðvart.
Við höfum farið yfir dagskrána sem hefur verið sett upp og ástæða er til að vera glaður yfir því hvað margir leggja hönd á plóg til að þetta verði áfram okkar góða sýrlenska vini og hjálparhellu í Sýrlandsferðunum, hið mesta ævintýri.