Úr einni afmælisveislu í aðra á laugardag

Ekki var setið lengi auðum höndum eftir að gestur okkar Maher Hafez, kom úr sinni velheppnuðu ferð um Borgarfjörð og Snæfellsnes með Guðrúnu S., Jóni og Ingibjörgu, Þórunni og Guðmundi. Sjá frásögn hér fyrir neðan.
Honum var boðið í tvær afmælisveislur VIMAfélaga á laugardagskvöldið. JK og Maher hófu veislukvöld hjá Þóru J. og þar hitti hann nokkra góða félaga. Afmælisbarnið bauð í lambahrygg, ákaflega ljúffengan og ís á eftir. Þarna fékk Maher tækifæri til að ræða matarvenjur Íslendinga og finnst við borða of mikið feitmeti - þó hann hafi raunar fallið kylliflatur fyrir íslensku smjöri þessa Íslandsdaga og ýmsu öðru sem flokkast ekki beinlínis undir hollustu af ýmsum. Elísabet J. var til andsvara og hélt uppi vörnum fyrir feitmeti.
Þetta var ánægjuleg stund í hvívetna.

Um tíuleytið keyrðu JK og Maher svo inn á Rauðalæk en þar hélt Hulda Waddel upp á fimmtusafmæli sitt og voru Hulda og Örn kát að hitta loks Maher en þau hafa verið í Portúgal síðustu tvær vikurnar. Óskar og Nína voru meðal boðsgesta og þau hafa heldur ekki getað verið með í Maher-gleðskapnum fyrr en þarna.

Í afmælisveislunum sagði Maher frá ævintýrum síðustu daga og sýndi "símamyndir" af veiðiskap og er þegar orðinn býsna laginn að lýsa þeim stóra sem hann missti eins og Guðrún S. minnist á í sínum pistli.

Ég skildi Maher eftir í afmælisveislu Huldu en þar voru meðal gesta Ragnheiður Gyða og Oddrún og þau fóru svo saman heim til Hörpugötu.

Nú í morgun, laugardag, veit ég ekki betur en Maher sé farinn norður í land, um Kjöl í fylgd með Gunnþóri og Ingu, Sigurbjörgu, Jóni Sigvaldasyni og Þórdísi.

Hann hefur þegar haft á orði að hann langi til að koma aftur seinna. Og gott ef hann vill ekki bara setjast hér að!