Tilbúin handrit

Grein eftir Jón Orm Halldórsson í Fréttablaðinu


Fyrsti maðurinn sem sem tók sér það fyrir hendur að eyða kvöldi í að upplýsa mig um sannleikann um Miðausturlönd var á þeim tíma ungur þingmaður á ísraelska þinginu, maður að nafni Ehud Olmert. Ég var Ehud þakklátur fyrir að vekja áhuga minn á þessum heimshluta en áhuginn á að halda sambandi við þennan duglega mann minnkaði fljótt. Eftir fáein samtöl fór það sem hann sagði að minna á eintal innan úr köldum, dökkum og stundum skelfilegum heimi. En ég bý í gömlu gyðingahverfi í Berlín og man eftir því á hverjum degi hvers vegna menn eru enn feimnir við að gagnrýna þá ofsafengnu þjóðernishyggju, það skelfilega kynþáttahatur, þann frumstæða yfirgang og þá botnlausu hræsni sem einkennir ráðandi öfl í Ísrael.
Eftir að Ehud vakti áhuga minn á Miðausturlöndum las ég það sem ég fann um þau. Þó kom margt á óvart þegar ég kom þar fyrst. Ein minning er um kvöldverð með stöndugum arabískum fjármálamönnum. Þeir voru allir kristinnar trúar en sögðu mér að virðingarverðasta stjórnmálahreyfing Miðausturlanda væri Hizbollah. Lítils háttar ferðalög um svæðið eyddu undrun minni. Hizbollah og Ehud Olmert eiga sama guðföður, Ariel Sharon. Hreyfingin var stofnuð til að berjast gegn óhemju blóðugri innrás Ísraels í Líbanon. Framganga Sharons þar varð til þess að hæstiréttur Ísraels sagði hann bera persónulega ábyrgð á fjöldamorðum á þúsundum Palestínumanna. Sharon var refsað fyrir mannskæðustu hryðjuverk Miðausturlanda með tímabundinni brottvikningu úr ríkisstjórn Ísraels. Hann sneri aftur til að skipuleggja nýjar landtökubyggðir í Palestínu. Svo varð hann nánasti bandamaður Bandaríkjanna í stríðinu gegn hryðjuverkum. Sharon þekkti hryðjuverk betur af eigin raun en flestir aðrir. Fjöldamorðin á konum, börnum og gamalmennum í Shatila og Sabra voru ekki hans fyrsta afrek á því sviði. Bush forseti lýsti því í viðtali hver forréttindi það hefðu verið fyrir sig að fá útskýringu á sögu Miðausturlanda frá Sharon. Þetta var líklega ekki of langt eða of flókið fyrir forseta Bandaríkjanna.
Ehud Olmert er einn tiltölulega fárra manna sem hefur orðið forsætisráðherra í Ísrael án þess að eiga að baki feril sem hryðjuverkamaður eða sem skipuleggjandi þjóðernishreinsana. Hann hefur þó notið margvíslegra tengsla við gamla hryðjuverkamenn allt frá unga aldri. Annar fyrrum forsætisráðherra, Menachem Begin, hafði mætur á hinum unga Ehud en Begin stjórnað Irgun-samtökunum sem drápu hundruð palestínskra borgara. Eini tilgangur með þeim morðum var að hræða Palestínumenn til að flýja land og í flóttamannabúðir eins og þær sem Ehud er að sprengja í tætlur í Líbanon. Þrátt fyrir náin tengsl við hryðjuverkamenn á Ehud hins vegar við ákveðinn ímyndarvanda að glíma í Ísrael. Yfirgangsöm stefna hans sem borgarstjóri í Jerúsalem hefur kostað þúsundir fjölskyldna heimili og lífshamingju en honum er þó ekki treyst eins vel og gömlu hryðjuverkamönnunum. Einu refsiverðu glæpirnir sem hann hefur verið sakaður um í Ísrael er fjármálaspilling og mútuþægni sem hann hefur annað veifið sætt rannsóknum fyrir. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir hann að vera ekki sakaður um linkind. Þar er að finna eina ástæðu þess að aldrei fyrr hafa eins margir saklausir borgarar verið drepnir á fyrstu mánuðum embættistíðar nýs forsætisráðherra.
Hryðjuverk eru yfirleitt aðferð hinna valdalausu. Ísrael er þar undantekning. Hryðjuverk gegn óbreyttum borgurum í þeim tilgangi að skelfa fólk og lama samfélög er beinlínis stefna ríkisins rétt eins og þau var stefna hryðjuverkasamtaka þriggja fyrrum forsætisráðherra landsins á árum áður.
Patten lávarður, síðasti landstjóri Breta í Hong Kong og fyrrum forystumaður breska íhaldsflokksins, sagði um daginn að skilyrðislaus stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael hefði búið til handritið að kreppunni sem nú ríkir í Miðausturlöndum. Eins og með Írak var þetta allt fyrirsjáanlegt. Það var auðvitað ekki fyrirsjáanlegt nákvæmlega hvaða börn yrðu drepin eða gerð munaðarlaus en menn gátu vitað að morðin héldu áfram. Í því liggur ábyrgð heimsins, rétt eins og í Írak.
Það eru auðvitað Bandaríkin en ekki við sem ráðum þessu. Þau leggjast gegn vopnahléi svo morðin halda áfram. En við ættum að fylgjast með. Við kusum menn sem kusu að fórna okkar merkustu hefð til að styðja stefnu Bandaríkjanna í Miðausturlöndum.